Slysaskot í norska hernum keyra um þverbak

Voðaskot sem hæfði hermann í öxl sviðsett við rannsókn málsins.
Voðaskot sem hæfði hermann í öxl sviðsett við rannsókn málsins. Ljósmynd/Norski herinn

„Þetta er allt of mikið. Tölurnar yfir slysaskot sem þið leggið fram eru of háar.“ Þetta segir Roald Linaker, öryggistrúnaðarmaður norska hersins, við fréttamenn ríkisútvarpsins þarlenda, NRK, og vísar til tölfræði sem þeir birta honum um 20 norska hermenn sem hlotið hafa misalvarlegar benjar vegna slysaskota frá félögum sínum síðastliðin þrettán ár, frá 2010.

Sem dæmi greinir NRK frá hermönnum sem skotnir voru í öxl, læri, handleggi og hönd téð árabil og kveður Linaker yfirmenn í hernum heldur þurfa að gera skurk í að fyrirbyggja slík óhöpp sem auðveldlega geta reynst banvæn þótt til slíks hafi ekki komið enn.

Munaði þó raunar litlu í tilfelli Mariu Mæle Christensen sem fékk skot í magann í hitteðfyrra og særðist lífshættulega. Gekkst hún undir aðgerð þar sem stór hluti þarma hennar var fjarlægður sem bjargaði lífi hennar er þó verður aldrei samt á ný.

Aldrei kannað hvers kyns skotfæri voru í vopninu

Christensen tók þátt í æfingu á Mågerø með norskum og sænskum sérsveitahermönnum þar sem hundanotkun á vígvellinum var æfð. Ætlunin var að æfingin yrði framkvæmd með púðurskotum en eitthvað fór þar verulega úrskeiðis og hermaðurinn sem skaut á Christensen sendi raunverulegu byssukúlu djúpt í iður hennar.

Kviður Mariu Mæle Christensen eftir aðgerð sem kostaði hana stóran …
Kviður Mariu Mæle Christensen eftir aðgerð sem kostaði hana stóran hluta þarma sinni eftir að sérsveitarhermaður skaut hana með byssu sem átti að vera hlaðin púðurskotum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Við rannsókn atviksins kom í ljós að aldrei var kannað hvers kyns skotfæri voru í vopninu sem Christensen var skotin með og sýnir tölfræðin að þarna var ekki um fyrsta þess kyns atvikið að ræða.

Hafa fréttamenn NRK fengið aðgang að og kynnt sér skýrslur um þrettán af þeim tuttugu slysum sem orðið hafa síðan 2010 og var þar alls um átta tilfelli að ræða þar sem skotvopn, sem áttu að vera óhlaðin eða hlaðin púðurskotum, reyndust hlaðin raunverulegum skotfærum.

Flest urðu óhöppin á norskri grundu en eitt þó í Afganistan og eitt í Írak.

Semja eigin reglur

Niðurstöður rannsókna margra tilfellanna voru að reglur þyrfti að herða og yfirmenn þyrftu að gæta mun betur að því að þeim yrði fylgt. Rannsókn árið 2018 sló því föstu að herinn ætti einfaldlega í stökustu vandræðum með að læra af mistökum.

Linaker öryggistrúnaðarmaður segir það miður að hermenn slasist með þessum hætti við æfingar. „Að svona lagað endurtaki sig þrátt fyrir rannsóknir og athuganir er einnig mjög dapurlegt. Sem öryggistrúnaðarmaður tel ég það mikilvægasta hlutverk hersins að gæta að öryggi starfsfólksins,“ segir hann en svo sem lesa má í nokkrum atvikaskýrslum er það talið verulega vafasamt að mismunandi deildir hersins fái að semja sínar eigin verklagsreglur um meðferð skotvopna. Eru sérsveitir hersins þar á meðal.

NRK

NRKII (atvikið á Mågerø)

NRKIII (skaut undirmann sinn)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert