Flóðbylgjuviðvörun eftir stóran jarðskjálfta

Þessi mynd er frá jarðskjálfta sem reið yfir 19. nóvember …
Þessi mynd er frá jarðskjálfta sem reið yfir 19. nóvember í Sarangani héraði á Filippseyjum. AFP

Jarðskjálfti af stærðinni 7,6 reið yfir í Mindanao á Filippseyjum í dag, að sögn Evrópsku jarðskjálftamiðstöðvarinnar (EMSC).

Skjálftinn var á 63 km dýpi (39,15 mílur) að sögn EMSC og reið yfir kl. 10:37 um kvöld að staðartíma, eða kl. 14:37 að íslenskum tíma.

Varað er við möguleika á flóðbylgju eftir jarðskjálftann, en eftirlitskerfi Bandaríkjamanna gaf út aðvörun þess efnis fyrir stuttu. 

Engar fréttir hafa borist af mannskaða eða skemmdum, enn sem komið er.

Flóðbylgjur ná til Japan

Uppfært kl. 16:11

Flóðbylgjur gætu gengið yfir Filippseyjar á miðnætti að staðartíma (kl. 16:00 íslenskum tíma) og gætu haldið áfram klukkustundum saman.

Að sögn japanska útvarpsins NHK er búist við allt að eins metra háum flóðbylgjum á vesturströnd Japans um kl. 1:30 á sunnudag (16:30 í dag að íslenskum tíma).

Fólki ráðlagt að yfirgefa svæðið

Uppfært 16:33.

„Búist er við lífshættulegum ölduhæðum og eyðileggingu af völdum þeirra,“ var skrifað á reikningi Eldgosa- og jarðskjálftastofnunar Filippseyja á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter.

Þar var því haldið fram að búast mætti við að öldur sem væru meira en einum metra yfir venjulegum sjávarföllum myndu ganga á ströndina og fólki í héruðunum Surigao del Sur og Davao ráðlagt að yfirgefa svæðið og koma sér á hærri svæði eða lengra inn í landið. 

Jarðskjálftar eru daglegt brauð á Filippseyjum sem liggja meðfram hinum svokallaða „eldhring“ þar sem er öflug jarðskjálfta- og eldvirkni sem teygir sig frá Japan í gegnum Suðaustur-Asíu og yfir Kyrrahafssvæðið.

Flestir skjálftarnir eru of veikburða til að menn geti fundið fyrir þeim en sterkir og hættulegir jarðskjálftar verða af og til og engin tækni er til staðar til að spá fyrir um hvenær og hvar þeir verða.

Uppfært 16:44

Rétt í þessu reið annar jarðskjálfti yfir sem talinn er vera 6,4 að styrk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert