Óttast hrun turnsins í Bologna

Frá ítölsku borginni Bologna.
Frá ítölsku borginni Bologna. Ljósmynd/Jeremy Keith

Yfirvöld í borginni Bologna á Ítalíu hafa reist fimm metra hátt virki umhverfis turninn Garisenda af ótta um að hann hrynji.

Ætlunin er að halda broti úr turninum innan marka þess, ef ske kynni að hann hrynji. 

Þetta kemur fram á vef BBC.

Garisenda turninn er 47 metrar að hæð og einn tveggja áberandi turna frá miðöldum í Bologna. Hinn er Asinelli turninn, en hann er um tvisvar sinnum hærri en Garisenda turninn.

Hallar um fjórar gráður

Asinelli turninn hallar smávegis, en ekki eins mikið og Garisenda, sem hallar um fjórar gráður. Þess ber að geta að skakki turninn í Písa hallar einnig um fjórar gráður.

Báðir turnarnir voru reistir á milli 1109 og 1119, en Garisenda turninn var minnkaður á fjórtándu öld sökum halla turnsins. 

Borgarráð Bologna segist líta málið grafalvarlegum augum, en mælingar sýna turninn breyta um stefnu. Þá hefur komið í ljós rýrnun á undirstöðu hans.

Áætlað er að framkvæmdin kosti um 650 milljónir króna, eða 4,3 milljónir evra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert