Sáu hluti sem þau „eiga aldrei að þurfa að sjá“

Mótmælendur í Tel Aviv í dag kalla eftir því að …
Mótmælendur í Tel Aviv í dag kalla eftir því að allir gíslarnir verði látnir lausir tafarlaust. AFP/Ahmad Gharabli

Ísraelskir gíslar sem voru leystir úr haldi á Gasasvæðinu hvöttu ríkisstjórn sína í dag til að tryggja lausn þeirra sem enn eru í haldi á stríðshrjáðu svæði Palestínumanna.

Gíslarnir, sem flestir voru frelsaðir í sjö daga vopnahléi Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas, tóku til máls í myndbandi sem var sent út fyrir mótmælafund í miðborg Tel Aviv þar sem þúsundir manna komu saman. 

Sáu hluti sem börn eiga aldrei að sjá

Í stuttum viðtölum sögðu fjórar konur sem voru í haldi Hamas frá ótta, hungri og svefnleysi eftir að hafa verið teknar í gíslingu í árásum hryðjuverkahópsins 7. október.

„Dætur okkar sáu hluti sem börn á þessum aldri eða á hvaða aldri sem er, eiga aldrei að þurfa að sjá,“ sagði Danielle Aloni, 45 ára, sem var látin laus í síðustu viku ásamt fimm ára dóttur sinni.

Irena Tati sem heldur á mynd af 27 ára barnabarni …
Irena Tati sem heldur á mynd af 27 ára barnabarni sínu Alexander Sasha Tropanov sem er enn í haldi Hamas hryðjuverkahópsins. AFP/Ahmad Gharabli

„Það var ekki mikill matur og eftir því sem leið á varð hann enn minni,“ sagði hin 84 ára gamla Ditza Heiman sem var látin laus á þriðjudag.

Gíslarnir sem voru frelsaðir hvöttu stjórnvöld til að gera allt sem hægt er til að tryggja lausn þeirra sem eftir eru. 

Yocheved Lifschitz, 85 ára, sem Hamas-samtökin slepptu úr haldi í október fyrir vopnahléið sagði það vera „siðferðilega skyldu þessarar ríkisstjórnar að koma þeim heim tafarlaust.“

137 enn í haldi 

80 ísraelskir gíslar, aðallega konur og börn, voru látnir lausir í skiptum fyrir 240 palestínska fanga í liðinni viku. Ísraelskir hermenn hófu á ný bardaga á Gasa í gærmorgun. 

Fjöldi fólks var samankomin í Tel Aviv í dag til …
Fjöldi fólks var samankomin í Tel Aviv í dag til að reyna knýja stjórnvöld til að setja frelsun gíslanna í algjöran forgang. AFP/Ahmad Gharabli

Yelena Trupanov, sem var sleppt úr haldi á miðvikudag, sagði á fundinum við mótmælendur fyrir utan listasafnið í Tel Aviv að „við verðum að skila Sasha og hinum“ og vísaði þar til sonar síns sem enn er í haldi á Gasa.

Trupanov, sem er 50 ára, hafði birst í gíslatökumyndbandi sem Hamas sendu út eftir árásirnar.

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði á laugardag að 137 Ísraelar og erlendir ríkisborgarar væru enn í haldi á Gasa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert