Segja yfir 240 fallna

Ísraelsher hóf loftárásir á Gasa í gærmorgun eftir vikulangt vopnahlé.
Ísraelsher hóf loftárásir á Gasa í gærmorgun eftir vikulangt vopnahlé. AFP

Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem stjórnað er af hryðjuverkasamtökunum Hamas, segja að yfir 240 manns hafi fallið í árásum Ísraelshers og að önnur 650 hafi særst, frá því að sjö daga vopnahléi lauk í gær.

Ísraelski herinn hefur lýst því yfir að hann hafi gert árásir á yfir 400 skotmörk á Gasa frá því að vopnahléi Ísraels og Hamas lauk í gær.

Ísrael hefur nú að nýju samhæft flug-, sjó- og landheri sína í árásum sínum, en samkvæmt tilkynningu frá ísraelska hernum hæfðu orrustuþotur hans einar og sér yfir 50 skotmörk í umfangsmikilli árás á Khan Yunis svæðið í suðurhluta Gasa.

Drápu tvo í Sýrlandi

Loftárásir Ísraelshers drápu tvo sýrlenska vígamenn Hisbollah í morgun þegar þeir réðust á svæði sem tilheyrðu samtökunum nálægt Damaskus, höfuðborg Sýrlands, samkvæmt heimildarmanni AFP-fréttastofunnar.

„Tveir sýrlenskir ​​vígamenn á vegum Hezbollah-samtakanna létust og sjö aðrir vígamenn særðust í loftárásum Ísraelshers á yfirráðasvæði Hezbollah-samtakanna nálægt Sayyida Zeinab,“ sagði Rami Abdel Rahman, sem fer fyrir bresku mannréttindavaktinni í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert