Danski herinn mun verja kennileiti gyðinga

Frá mótmælafundi til stuðnings Palestínumönnum sem var haldinn í Kaupmannahöfn …
Frá mótmælafundi til stuðnings Palestínumönnum sem var haldinn í Kaupmannahöfn í gær. AFP/Emil Nicolai Helms / Ritzau Scanpix

Danskar hersveitir verða staðsettar við kennileiti gyðinga og Ísrael í Kaupmannahöfn frá og með 6. desember til þess að bregðast við auknu gyðingahatri í borginni. 

„Átökin í Mið-Austurlöndum hefur leitt til algjörlega óviðunandi aukningar á gyðingahatri og óöryggi gyðinga í Danmörku,“ sagði Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra í dag.

„Við erum í þeirri stöðu að hryðjuverkaógnin sem hangir yfir Danmörku er alvarleg.“

Hummelgaard sagði að stríðið á Gasa hefði mikil áhrif á störf og getu dönsku lögreglunnar, en meðal annars hafa nokkrum sinnum brotist út hörð mótmæli eftir Kóranbrennur.

Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra.
Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra. AFP/Mads Claus Rasmussen / Ritzau Scanpix

Neitaði að svara

Á meðal staða sem hermenn munu vakta verða sýnagógur og ísraelska sendiráðið. Talið er að um sex til átta þúsund gyðingar búi í Danmörku. 

Dómsmálaráðuneytið neitaði að svara fyrirspurn AFP-fréttaveitunnar varðandi hvort hersveitir myndu einnig vakta kennileiti múslima í ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert