Fjögur stungin til bana á heimili í Queens

Lögregluþjónar. Mynd úr safni.
Lögregluþjónar. Mynd úr safni. AFP/John Normile/Getty Images

Fjórir eru látnir eftir stunguárás á heimili í Queens í New York í dag. Lögregla skaut árásarmanninn til bana. 

CBS News greinir frá því að tilkynning hafi borist um árásina klukkan 5 í morgun að staðartíma. 

Er lögregla mætti á vettvang sáu lögregluþjónar mann með ferðatösku á leið út úr húsinu. Er lögregla ætlaði að ræða við hann tók hann fram hníf og skar tvo lögreglumenn. Þeir eru ekki alvarlega særðir.

Annar lögreglumaður skaut árásarmanninn, sem hefur verið nafngreindur sem hinn 38 ára gamli Courtney Gordon. Hann var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. 

Tvö börn

Á meðal hinna látnu er ellefu ára gömul stúlka. Hún fannst með stungusár fyrir utan heimilið. 

Lögregla sagði að ekki hefði verið hægt að fara strax inn á heimilið þar sem að eldur hefði kviknað. Talið er að Gordon hafi kveikt í sófa áður en hann yfirgaf húsið. 

Eftir að slökkvilið náði að slökkva eldinn fann lögregla þrjá til viðbótar látna, tólf ára dreng, 44 ára gamla konu og mann á fertugsaldri. Talið er að þau hafi öll verið stungin til bana. 

61 árs gömul kona var einnig inni á heimilinu með stungusár. Hún liggur nú þungt haldin á sjúkrahúsi. 

Gordon hafði áður verið handtekinn fyrir heimilisofbeldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert