57 látnir eftir flóð og skriðuföll í Tansaníu

Samia Suluhu Hassan, forseti Tansaníu.
Samia Suluhu Hassan, forseti Tansaníu. AFP

Að minnsta kosti 57 létu lífið og óttast er að margir séu fastir undir rústum í kjölfar skriðufalla og flóða af völdum mikillar úrkomu í norðurhluta Tansaníu.

Frá þessu greindu ráðamenn í Tansaníu í dag en úrhellisrigningin um helgina skolaði burt farartækum og eyðilagði margar byggingar í bænum Katesh sem er um 300 kílómetra norður af höfuðborginni Dodoma.

„Hingað til höfum við misst 57 bræður okkar og systur í þessum hamförum og 85 eru á sjúkrahúsi,“ sagði forsetinn Samia Suluhu Hassan við fréttamenn í dag. Hún stytti ferð sína til Dúbaí, þar sem hún tók þátt í COP28 loftlagsráðstefnunni, vegna hamfaranna heima fyrir.

Tansanía og grannríkin í Austur-Afríku, Kenía, Sómalía og Eþíópía, hafa glímt við flóð af völdum úrhellisrigninga sem tengjast El Niño-veðurmynstrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert