Heilbrigðiskerfið hafi brugðist skyldum sínum

Innanríkisráðherra Frakklands, Gerald Darmanin segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist vöktun sinni …
Innanríkisráðherra Frakklands, Gerald Darmanin segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist vöktun sinni á árásarmanninum. AFP/Patrick Hertzog

Innanríkisráðherra Frakklands segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist skyldum sínum þegar kom að því að vakta árasarmanninn sem stakk þýskan ferðamann til bana nærri Eiffel-turninum um liðna helgi. 

Árásarmaðurinn, Armand Rajabpour-Miyandoab, er franskur ríkisborgari á þrítugsaldri, en hann hefur verið yfirvöldum kunnur um tíma og var handtekinn árið 2016 fyrir að leggja drög að árás, sem ekki varð af. 

Fyrir það var hann vistaður í fangelsi í fjögur ár og hefur verið undir eftirliti hjá lögreglu síðan þá.

Læknar sögðu hann við góða heilsu

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, sagði fjölmiðlum að það hefði klárlega verið brestur í kerfinu. Þó ekki þegar kom að lögreglueftirliti heldur þegar kom að geðrænu eftirliti. 

Þá sagði hann að árásarmaðurinn hefði greinilega verið illa haldinn, en að læknar hafi í nokkrum tilfellum sagt að geðrænt ástand hans væri að skána og að hann mætti vera frjáls ferða sinna. 

Stuttu fyrir árásina birti Armand myndband á netinu þar sem hann sór eið íslamska ríkisins og lýsti yfir stuðningi við jihadista.

Eftir árásina flúði hann vettvang og kallaði allahu akbar eða Guð er mest­ur. Lögreglan yfirbugaði hann með rafbyssum og er hann nú í gæsluvarðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert