Segjast ekki hafa vitað af áætlun Hamas

Ísraelskir hermenn.
Ísraelskir hermenn. AFP/Ahmad Gharabli

Ísraelsher hefur vísað á bug fregnum um að hann hafi vitað af áætlun Hamas-samtakanna um að fara yfir landarmærin og ráðast í skyndi á Ísrael.

Blaðið New York Times sagði frá því í síðustu viku að Ísraelsher hefði vitað af fyrirætlunum Hamas rúmu ári áður en árásin var gerð en ekki talið að þær yrðu að veruleika.

„Það er fáránlegt að setja fram hvers kyns samsæriskenningar,” sagði ísraelski hershöfðinginn Jonathan Concrius á samfélagsmiðlinum X, og vísaði fréttinni á bug, að því er BBC greindi frá. 

Mikill reykur í lofti eftir loftárás Ísraelshers á Gasasvæðið.
Mikill reykur í lofti eftir loftárás Ísraelshers á Gasasvæðið. AFP/John MacDougall

Sinntu ekki skyldu sinni

Hann viðurkenndi þó að hernum hefði mistekist að sinna skyldu sinni og vernda Ísraelsmenn þennan dag.

Bætti hann við að um leið og herinn hefði „sigrað Hamas” færi hann í umfangsmikla naflaskoðun. „Við munum komast að því hvað gerðist, hvernig það gerðist og hvernig verður hægt að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur,” sagði hann.

Stjórn­völd í Ísra­el segja um 1.200 hafa fallið í skyndi­árás Hamas á Ísra­el. Um 15.500 manns eru sagðir hafa lát­ist í gagnárás Ísra­els­hers á Gasa­svæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert