Féll 59 sinnum

Ætli fólk sér að komast í æfingaakstur í Bretlandi þá …
Ætli fólk sér að komast í æfingaakstur í Bretlandi þá þarf það fyrst að ná bóklega hlutanum. AFP

Einkenni sigurvegara er að gefast ekki upp þótt vindar blási. Segja má að það sé saga ökunemanda sem þreytti skriflegt próf og féll 59 sinnum áður en hann komst loks yfir marklínuna. Nemandanum, sem hefur ekki verið nefndur á nafn, hefur verið hrósað fyrir einstaka þrautseigju og eljusemi.    

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins að viðkomandi einstaklingur hafi eytt 1.380 pundum, sem jafngildir um 240.000 kr., og varið um 60 klukkustundum við próf í Redditch.

Þetta ku vera met á Bretlandseyjum, en er þó ekki mjög fjarri frá því gamla. Það átti ökumaður frá Hull sem féll alls 57 sinnum. Næstur á eftir var ökumaður í Guildford sem féll alls í 55 skipti og í fjórða sæti er svo maður frá Turnbridge Wells með 53 neikvæðar niðurstöður. 

Félag bifreiðaeigenda í Bretlandi segir að stress hafi vissulega áhrif en að yfirferð sé lykillinn að árangri. 

Það kostar um 23 pund, um 4.000 kr., að þreyta skriflegt próf sem tekur vanalega um eina klukkustund að leysa. 

Breska samgöngustofan segir að árangur í bóklega hlutanum sé á niðurleið, því tímabilið 2007-2008 flugu um 65% nemenda í gegnum skriflega hlutann á meðan hlutfallið fyrir tímabilið 2022-2023 trappaðist niður í 44%. 

Til að geta hafið æfingaakstur í Bretlandi þurfa nemendur fyrst að ná skrifalega hlutanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert