Óttast árásir um jólin

Þýskur ferðamaður var myrtur í árás skammt frá Eiffelturninum á …
Þýskur ferðamaður var myrtur í árás skammt frá Eiffelturninum á laugardag. AFP

Háttsettur embættismaður hjá Evrópusambandinu varar við mögulegri hryðjuverkaógn í ríkjum ESB yfir jólahátíðina. 

Ylfa Johansson, sem fer með innanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, segir að það ástand og pólarísering sem hafi víða skapast vegna stríðsátaka Ísraels og Hamas auki hættuna á ofbeldisverkum. 

Nýverið var greint frá því að ferðamaður hefði verið myrtur í París, höfuðborg Frakklands. 

Ylfa Johansson fer með innanríkismál í framkvæmdastjórn ESB.
Ylfa Johansson fer með innanríkismál í framkvæmdastjórn ESB. AFP

4,5 milljarðar aukalega í öryggismál

Johansson greindi frá því að ESB muni verja 30 milljónum evra aukalega í öryggismál. Það jafngildir um 4,5 milljörðum króna.

Johansson gaf ekki upp hvort hún hefði undir höndum ákveðnar upplýsingar sem kölluðu á slíka viðvörun. 

„Við sáum það nú fyrir skemmstu í París, og því miður þá höfum við orðið vitni að slíku áður,“ sagði hún skömmu fyrir ráðherrafund ESB. 

Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands, lét svipuð ummæli falla nýverið, þegar hún sagði við blaðamenn að ESB yrði að fylgjast grannt með öllum þeim hótunum og áróðri sem væri í gangi, því það væri mikil hætta á ofbeldisverkum hjá íslömskum öfgahópum. 

Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands.
Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Hatursglæpum fer fjölgandi

Fram kemur í umfjöllun BBC, að mörg ríki Evrópu hafi séð mikið stökk í hatursglæpum í kjölfar hryðjuverkaárásar sem Hamas gerði á Ísrael 7. október. Þá lágu um 1.200 manns, meirihlutinn óbreyttir borgarar, í valnum og margir voru teknir í gíslingu og farið með fólkið yfir til Gasa. Stjórnvöld í Ísrael brugðust hart við og gerðu innrás, sem heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, segja að hafi leitt til 15.000 dauðsfalla. 

Ráðherrar ESB komu saman til fundar eftir árásina í París á laugardag. Þá var 23 ára gamall þýskur ferðamaður stunginn til bana skammt frá Eiffelturninum. Kærasta mannsins, sem er breskur ríkisborgari, særðist í árásinni. Þau höfðu heimsótt Disneyland í París, Louvre-listasafnið og tekið sjálfur fyrir framan turninn skömmu áður en ráðist var á þau. 

Lögreglan segir að 26 ára gamall Frakki sé í haldi. Hann er sagður heita Armand R. og á rætur að rekja til Írans. Lögreglan segir að hann hafi nýverið lýst yfir hollustu við Ríki íslams. Maðurinn var handtekinn á vettvangi glæpsins. Hann hefur áður setið á bak við lás og slá fyrir að hafa skipulagt hryðjuverkaárás í La Défense-viðskiptahverfinu skammt frá París. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert