Látin eftir árás hákarls

Andlát af völdum hákarla eru sjaldgæf en gerast flest í …
Andlát af völdum hákarla eru sjaldgæf en gerast flest í Ástralíu. AFP

Bandarísk kona er látin eftir að hafa orðið fyrir árás hákarls á Bahamaeyjum á mánudaginn.

Konan sem er frá Boston í Massachussets var í fríi á New Providence-eyjunni og varð fyrir árásinni þar sem hún réri á brimbretti, eða það sem kallast paddleboarding á ensku. Konan var á brimbrettinu ásamt samfylgdarmanni en hann slapp frá árásinni ósærður. 

Samkvæmt umfjöllun NPR stukku strandverðir til í björgunarbát um leið og þeim varð ljóst hvað um var að vera, en árásin átti sér stað 1,5 kílómetrum frá ströndinni.

Náðu þeir að koma bæði konunni og manninum úr klóm hákarlsins, en konan lést af sárum sínum áður en hægt var að flytja hana á sjúkrahús.

Konan var í fríi á New Providence, fjölmennustu Bahamaeyjunni.
Konan var í fríi á New Providence, fjölmennustu Bahamaeyjunni.

Ráðast af og til viljandi á fólk

Ekki liggur fyrir hvers kyns hákarl réðst á konuna en Gavin Naylor, formaður samtaka sem skjalfesta hákarlaárásir, segir yfirvöld á Bahamaeyjum hafa tilkynnt nokkrar slíkar árásir á síðustu fimm árum. 

Naylor telur mikinn fjölda ferðamanna á Bahamaeyjum eiga þátt í auknum árásum hákarla á fólk. Margt fólk sé í sjónum og margir hafi jafnvel áhuga á að skoða og synda með hákörlunum. Dýrin venjist því mannfólki og verði minna varkár í garð þeirra. 

„Yfirleitt bíta þeir fólk fyrir slysni, þeir halda að þetta sé eitthvað annað,“ segir Naylor en bætir við að af og til komi það fyrir að hákarlar ráðist á fólk af beinum ásetningi. 

Hann segir andlát af völdum hákarla fremur sjaldgæf eða um fimm til sex manns á ári, en að flestar slíkar árásir eigi sér stað í Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka