Fréttaþulur BBC sýndi löngutöng

Moshiri í upphafi útsendingarinnar.
Moshiri í upphafi útsendingarinnar. Mynd/Skjáskot

Fréttaþulur BBC hefur beðist afsökunar á því að hafa sýnt áhorfendum miðfingurinn í upphafi útsendingar í morgun.

Maryam Moshiri, sem er virtur fréttaþulur á fréttastofu BBC, sást á skjánum reka upp löngutöngina eftir að talið hafði verið niður að fréttunum.

Hún áttaði sig fljótlega á því að hún var í beinni útsendingu og hóf fréttalesturinn eins og ekkert hefði í skorist.

Moshiri segir að um einkabrandara hafi verið að ræða, að því er The National greindi frá. 

„Mér þykir þetta leitt,” sagði hún og útskýrði að hún hefði verið að telja niður frá 10 er hún var að grínast við samstarfsfólk sitt og hefði endað á löngutönginni. Hún hefði ekki áttað sig á því að bein útsending væri hafin.

„Þetta var einkabrandari með hópnum og mér þykir það leitt að þetta fór í loftið! Þetta átti ekki að gerast og ég biðst afsökunar ef ég hef komið einhverjum í uppnám,” sagði hún.

„Ég var ekki að senda neinum fingurinn, hvorki áhorfendum né nokkurri manneskju. Þetta var kjánalegur brandari sem var ætlaður litlum hópi félaga minna.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert