Lífshættulega særður í Tønsberg

Læknir frá Larvik er í lífshættu eftir að hafa verið …
Læknir frá Larvik er í lífshættu eftir að hafa verið stunginn í húsvitjun í Tønsberg síðdegis á miðvikudag. Myndin sýnir bryggjuna í miðbæ Tønsberg. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Læknir, sem sinnti heimavitjun í Tolvsrød-hverfinu í norska bænum Tønsberg, suður af Ósló, síðdegis á miðvikudag, liggur lífshættulega sár á sjúkrahúsinu þar í bænum eftir að maður á fertugsaldri lagði til hans með hníf í vitjuninni.

Lögreglan í Tønsberg staðfestirað læknirinn hlaut lífshættulegar benjar af atlögunni. Ekki leið á löngu þar til sá sem grunaður er um verknaðinn var handtekinn og fluttur á sjúkrahús til að byrja með en fer þaðan í fangaklefa.

Á sér ekki sakaferil

Að sögn lögreglu lagði hún hald á hníf sem reiknað er með að sé vopnið en sá handtekni er grunaður um tilraun til manndráps. Hann á sér ekki sakaferil en hefur enn ekki sætt yfirheyrslu eftir því sem Odd Skei Kostveit rannsóknarlögreglumaður greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá.

Aðstandendum læknisins, sem er frá Larvik, hefur verið tilkynnt um atvikið en Guri Winsvold, fulltrúi bæjarstjóra Larvik, segir íbúa þar slegna og í framhaldinu verði farið ofan í saumana á vinnulagi lækna sveitarfélagsins svo tryggja megi öryggi þeirra betur.

NRK

Østlands-Posten greindi fyrst frá (læst áskriftarsíða)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert