Dómari skipar BBC að birta tölvupósta tengda Bashir

Úr viðtali Martin Bashir við Díönu prinsessu frá árinu 1995.
Úr viðtali Martin Bashir við Díönu prinsessu frá árinu 1995.

Breskur dómari hefur harðlega gagnrýnt Breska ríkisútvarpið fyrir að birta ekki tölvupóstsamskipti sem tengjast viðtali Martin Bashir við Díönu prinsessu árið 1995 fyrir Panorama. 

Árið 2021 kom út rannsókn dómarans John Dy­son sem leiddi í ljós að Bashir hefði platað bróður prins­ess­unn­ar til að hjálpa við að skipu­leggja viðtalið. Viðtalið vakti mikla at­hygli á sín­um tíma. Bashir lét af störfum í kjölfarið.

Viðbrögðin „ósamrýmd, röng og óáreiðanleg

BBC greinir frá því að gagnrýni dómarans tengist beiðni blaðamannsins Andy Webb.

Webb hefur verið að rannsaka hvað yfirmenn Bashir vissu um tildrög viðtalsins. Hann óskaði eftir tölvupóstasamskiptum yfirmanna á BBC yfir tveggja mánaðatímabil frá árinu 2020.

BBC lét Webb fá lítinn hluta tölvupóstanna, en síðar kom í ljós að alls voru þeir fleiri en þrjú þúsund á þessu tímabili. 

BBC sagði að tölvupóstarnir innihéldu upplýsingar sem voru annaðhvort „óviðeigandi“ eða „leynilegar“.

Brian Kennedy dómari úrskurðaði að BBC skyldi afhenda Webb fleiri tölvupósta og sagði að viðbrögð stofnunarinnar hafi verið „ósamrýmd, röng og óáreiðanleg“. 

Þá sagði Kennedy að viðbrögð BBC gæfu ástæðu „til að hafa verulegar áhyggjur“.

Í yfirlýsingu sagði BBC að mistök hafi verið gerð og að dómurinn væri nú til skoðunar. Webb verður beðinn afsökunar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert