Kínverjar hafi veist „háskalega“ að flutningaskipi

Kröfur Kín­verja um yf­ir­ráð á svæðinu eiga sér eng­in sagn­fræðileg …
Kröfur Kín­verja um yf­ir­ráð á svæðinu eiga sér eng­in sagn­fræðileg rök en þeim er svo sem sama. AFP

Filippseyingar segja skip kínversku landhelgisgæslunnar hafa vísvitandi veist að filippseyskum bát nálægt margumdeildum eyjaklasa í Suður-Kínahafi í dag. Svipaður árekstur varð á svæðinu fyrir skömmu en stjórnvöld í báðum löndum slá sökinni upp á hvor önnur.

Filippseyjamenn voru að flytja vörur til setuliðs á hinu um­deilda Ayung­in-rifi, eða the Second Thomas Shoal, í Spratly-eyjaklasanum þegar bátarnir rákust á.

Áreksturinn gerðist aðeins einum degi eftir að stjórnvöld í Manila höfðu sakað kínversku landhelgisgæsluna um að nota vatnsbyssur til þess að „hindra“ ferðir þriggja báta filippseyska ríkisins sem ætluðu að flytja birgðir til filippseyskra sjómanna nálægt eyja­klas­anum Scar­borough Shoal í Suður-kínahafi.

Eng­in sagn­fræðileg rök fyrir kröfu Kínverja

Filippseyingar hafa um árabil staðið í deilum við Kínverja um yfirráð í Suður-Kínahafi. Kína krefst yfirráða yfir nær öllu hafsvæðinu en Filippsey­ingar telja eyjaklasann vel innan 200 mílna efnahagslögsögu sinnar. Spenna hefur aukist í sambandi Filippseyja og Kína á síðustu mánuðum, þar sem tveir svipaðir árekstrar hafa orðið á svæðinu í ár. 

Alþjóðagerðardómurinn í Haag úr­sk­urðaði árið 2016 að kröf­ur Kín­verja um yf­ir­ráð á svæðinu ættu sér eng­in sagn­fræðileg rök. Kínverjar gefa dómnum lítinn gaum og er þeim mikið í mun að sýna fram á styrk sinn í Suður-Kína­hafi, t.a.m. með viðveru eftirlitsbáta og uppbyggingu á tilbúnum eyju.

Filippseysk stjórnvöld segja í tilkynningu að „kínverska landhelgisgæslan og kínverski sjóherinn áreittu, hindruðu og framkvæmdu háskalega aðgerð gegn filippseysku flutningaskipi“.

Kínverskt skip hafi einnig valdið „umtalsverðu tjóni“ á vél skips filippseysku landhelgisgæslunnar, þegar vatni hafi verið sprautað á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert