Maersk hyggst sigla um Rauðahafið á ný

Rauðahafið er ein mik­il­væg­asta sjó­leið fyr­ir olíu- og eldsneyt­is­flutn­inga, sem …
Rauðahafið er ein mik­il­væg­asta sjó­leið fyr­ir olíu- og eldsneyt­is­flutn­inga, sem og neyslu­vör­ur. AFP

Skipafélagið Maersk hyggst hefja siglingar á ný um Rauðahafið eftir að hafa hætt þeim tímabundið vegna árása uppreisnarhóps Húta í Jemen á flutningaskip á Rauðahafi.

Hefja þeir siglingarnar þökk sé sameiginlegri varnaraðgerð fleiri en 20 ríkja undir forystu Bandaríkjanna sem hafa samið um að reyna verja skip á þessu svæði frá árásum Húta. Nefnist aðgerðin „Operation Prosperity Guardian“ (OPG), lauslega þýtt á íslensku sem „Velmegunarvarðaraðgerðin“.

Rauðahafið er ein mik­il­væg­asta sjó­leiðin á milli Asíu og Evrópu fyr­ir olíu- og eldsneyt­is­flutn­inga, sem og neyslu­vör­ur.

Fréttastofa ABC greinir frá.

Árásirnar gerðar með blessun Írans

Maersk sagði í yfirlýsingu á sunnudag að í ljósi þess að úr varnaraðgerðinni OPG varð þá væri skipafélagið byrjað að undirbúa siglingar á nýjan leik.

Hútar hafa stundað þrálátar eldflauga- og drónaárásir á flutningaskip síðan að stríðið á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas hófst þann 7. október en síðustu vikur hafa árásirnar aðeins færst í aukanna.

Hútar eru studdir af klerkaveldinu Íran og segir bandaríska varnarmálaráðuneytið að þessar árásir Húta séu gerðar með blessun Írans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert