Hútar hæfðu skip á Rauðahafi

Grant Shapps, varnarmálaráðherra Bretlands, flutti í dag ræðu í Lancaster-húsinu …
Grant Shapps, varnarmálaráðherra Bretlands, flutti í dag ræðu í Lancaster-húsinu í London og ræddi þar mikilvægi þess að verja breska og bandaríska hagsmuni gegn ítrekuðum árásum Húta á flutninga- og herför á Rauðahafi. AFP/Henry Nicholls

Vöruflutningaskip í bandarískri eigu, skráð á Marshall-eyjum, varð fyrir flugskeyti á Rauðahafi í dag, úti fyrir strönd Jemens. Frá þessu greinir breska Maritime Trade Operations-stofnunin sem hefur með öryggismál á hafi úti að gera.

Sagði í tilkynningu stofnunarinnar, sem birt var á vefsíðu hennar, að skipið hefði orðið fyrir „flugskeyti að ofan“ án þess að farið væri gerlegar í smáatriði.

Þá greinir breskt fyrirtæki, Ambrey, sem annast áhættugreiningu sjófarenda, frá því að eldur hafi kviknað um borð í flutningaskipinu í kjölfar árásarinnar en enginn í áhöfninni hafi beðið líkamstjón af og skipið verið haffært þrátt fyrir atlöguna.

Hefnd fyrir árásir á föstudaginn

Telja talsmenn Ambrey það líklegt að árásin, sem uppreisnarmenn Húta stóðu á bak við, hafi verið til hefnda fyrir loftárásir Bandaríkja og Breta á herstöðvar uppreisnarmannanna í Jemen á föstudaginn en ekki tengst væringum Ísralesmanna og Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Gasasvæðinu.

Ól árásin á föstudag á ótta þeirra sem bera kvíðboga fyrir því að átök Ísraelsmanna við Hamas breiði úr sér til annarra svæða heimsins.

Hafa Hútar skotið að nokkrum flutningaskipum á Rauðahafi síðustu mánuði og látið í veðri vaka að öll skip, óháð þjóðerni, séu skotmörk þeirra með það fyrir augum að hindra vöruflutninga til Ísraelsmanna en Hútar eru hliðhollir Hamas í þeirri skálmöld er ríkt hefur frá innrás samtakanna í Ísrael 7. október. Hafa fæst þeirra skipa sem sætt hafa árásum þeirra verið á leið til Ísraels að sögn útgerða.

Hútar hafa ekki tjáð sig um árásina í dag en ekki er lengra síðan en í gær að bandarískt herskip skaut niður flugskeyti þeirra sem beint var að skipinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka