Skuldastaða Bandaríkjanna ósjálfbær

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. AFP

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin verði að ræða og taka á skuldastöðu ríkissjóðs sem sé ósjálfbær. 

Bandaríkin skulda í dag rúma 34 billjónir dala, sem jafngildir um 4.600 billjónum króna, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska fjármálaráðuneytinu. 

„Til lengri tíma litið þá eru Bandaríkin á ósjálfbærri fjárhagslegri vegferð. Ríkissjóður Bandaríkjanna er á ósjálfbærri fjárhagslegri vegferð. Og það þýðir einfaldlega að skuldastaðan vex hraðar en hagkerfið,“ sagði Powell í viðtali hjá bandaríska fréttaskýringarþættinum 60 Minutes, sem CBS-sjónvarpsstöðin sýnir. 

Þurfa ræða málin eins og fullorðið fólk

Hann segir að það sé orðið löngu tímabært að kjörnir fulltrúar ræði um það eins og fullorðið fólk hvernig koma eigi ríkisstjórninni á réttan kjöl.

„Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að það er orðið tímabært að leggja aftur áherslu á fjárhagslega sjálfbærni. Og það fyrr en síðar.“

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í liðinni viku að halda stýrivöxtum óbreyttum í fjórða sinn í röð. Bankinn tók einnig fram að stýrivaxtalækkun sé ekki fram undan þrátt fyrir að vinnumarkaðurinn sé að eflast og verðbólgan að hjaðna. 

Ólíklegt að stýrivextir lækki í bráð

Næsta stýrivaxtaákvörðun er eftir sjö vikur og Powell sagði í viðtalinu að það væri ósennilegt að vænta megi lækkunar á næsta fundi peningastefnunefndar bankans. 

„Það besta sem við getum gert núna er að vega og meta áhættuna af því að bregðast við of snemma við áhættuna af því að bregðast við of seint, og taka ákvarðanir í rauntíma. Sá tími nálgast, myndi ég segja, sem byggir á því sem við búumst við.“

Meginvextir bankans hafa ekki verið hærri í 23 ára og hafa haldist á milli 5,25 og 5,5%. 

Powell segist eiga von á því að verðbólgan muni halda áfram að hjaðna á þessu ári og að staðan verði metin í mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert