Sex ára stúlka fannst látin

Sex ára palestínska stúlkan Hind Rajab. Myndin er fengin með …
Sex ára palestínska stúlkan Hind Rajab. Myndin er fengin með leyfi fjölskyldu hennar. AFP

Hind Rajab, sex ára stúlka sem saknað hefur verið á Gasasvæðinu frá 29. janúar, hefur fundist látin ásamt fjölskyldu sinni og tveimur sjúkraflutningamönnum.

Þegar síðast heyrðist frá henni var hún föst í bílflaki ásamt skyldmennum sínum, sem öll voru þá þegar látin.

Breska ríkisútvarpið og aðrir miðlar greina nú frá þessu. 

Rajab og fjölskylda hennar voru að flýja Gasaborg. Virðast þau hafa mætt skothríð frá herliði Ísraela og skriðdrekum.

mbl.is fjallaði um stúlkuna og leitina að henni í lok janúar. Fullyrt var þá að systir hennar hefði verið í bílnum. Svo var ekki, miðað við nýjasta fréttaflutning.

Grátbað um hjálp innan um skothvelli

Á upptökum Rauða hálfmánans má heyra stúlkuna ræða við viðbragðsaðila hjálparsamtakanna.

Gefa þær til kynna að hún hafi verið ein á lífi í bifreiðinni og að hún hafi falið sig undir líkum skyldmenna sinna. 

Í símtalinu grátbað stúlkan um hjálp áður en skothvellir heyrðust og símtalinu lauk.

Bíllinn fannst sundurskotinn á vettvangi.
Bíllinn fannst sundurskotinn á vettvangi. AFP

Viðbragðsaðilar fundu bílinn sundurskotinn í gær, laugardag, á skilgreindu átakasvæði og reyndist Rajab vera á meðal hinna látnu í bílnum.

Þá fannst sjúkrabíll sem sendur var til að aðstoða stúlkuna gjöreyðilagður og fundust tveir sjúkraflutningamenn látnir.

Hind fannst látin í bílflaki.
Hind fannst látin í bílflaki. AFP

Segjast hafa verið með heimild 

Talsmenn Rauða hálfmánans hafa sakað Ísraelsher um að hafa vísvitandi ráðist að sjúkrabílnum sem sendur var fjölskyldunni til hjálpar.

Að sögn samtakanna höfðu Ísraelsmenn veitt heimild til að aðstoða stúlkuna. Hernum hafði verið gefin upp nákvæm hnit þangað sem sjúkrabíllinn hugðist fara í björgunarleiðangur til stúlkunnar. 

Ísraelsmenn hafa sakað Rauða hálfmánann um að notast við sjúkrabíla til að flytja vopn til liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Hamas á átakasvæðum. 

Samtöl við Rajab voru gerð opinber að hluta og vöktu mikla athygli. Þá var ráðist í umfangsmikið ákall þar sem biðlað var til fólks að reyna að finna hana og koma henni til hjálpar.

Beið eftir dóttur sinni á sjúkrahúsi

Móðir stúlkunnar sagði í samtali við BBC, áður en dóttir hennar fannst látin, að hún væri að vonast eftir dóttur sinni á hverri sekúndu.

Nú krefst hún þess að einhver verði dreginn til ábyrgðar. 

„Hversu margar fleiri mæður munu finna fyrir þessum sársauka? Hversu mörg fleiri börn viltu að verði drepin?“ sagði hún á sjúkrahúsinu þar sem hún beið frétta af dóttur sinni.

Hélt hún þar á lítilli bleikri tösku sem hún ætlaði að láta litlu dóttur sína fá.

Skot­in til bana með ömmu­barnið við hlið sér

Í janúar var fjallað um átján ára gamla palestínska konu, sem horfði upp á móður sína skotna til bana þar sem hún leiddi fjög­urra ára gaml­an dreng, ömmu­barnið, sér við hlið á flótta und­an vopnuðum átök­um í al-Rimal-hverf­inu í Gasa­borg 12. nóv­em­ber.

Höfðu ísra­elsk­ir skriðdrek­ar ekið inn í hverfið nokkr­um dög­um áður, árás­ar­drón­ar svifu yfir byggðinni og sprengjugnýr­inn var ær­andi.

„Móðir mín hefði orðið 58 ára 30. des­em­ber og hélt í hönd barna­barns­ins síns. Hvers vegna að skjóta hana?“ spurði kon­an, Sara Khreis, í sam­tali við frétta­mann CNN.

Sífellt meiri eyðilegging

Stríð Ísra­els gegn hryðju­verka­sam­tök­un­um Ham­as hef­ur skemmt eða eyðilagt um helm­ing allra bygg­inga á Gasa­svæðinu, að því er fram kem­ur í skýrslu Sam­einuðu þjóðanna sem gefin var út í lok janúar.

Sam­kvæmt út­reikn­ing­um stofn­un­ar­inn­ar í lok nóv­em­ber höfðu 37.379 bygg­ing­ar, eða 18% af heild­ar­fjölda bygg­inga á Gasa­svæðinu, verið ým­ist skemmd­ar eða eyðilagðar í árás­um Ísra­els­hers.

Síðan þá sýna gervi­hnatta­mynd­ir sí­fellt meiri eyðilegg­ingu, að sögn Rami Alazzeh, hag­fræðings við stofn­un­ina sem sér­hæf­ir sig í aðstoð við palestínska borg­ara, en hann er meðhöf­und­ur skýrsl­unn­ar.

„Nýju gögn­in sýna að 50% bygg­inga í Gasa eru skemmd­ar eða eyðilagðar,“ sagði hann í sam­tali við AFP-frétta­stof­una. Var­aði hann við því að þeim mun leng­ur sem hernaðaraðgerðir Ísra­els­hers í Gasa stæðu yfir, því verri yrðu af­leiðing­arn­ar.

„Gasa á þess­ari stundu er óbyggi­legt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert