Farþegi lést um borð í miðju flugi

Vélin var á leið til Þýskalands þegar maðurinn lést.
Vélin var á leið til Þýskalands þegar maðurinn lést. AFP/Christof Stache

Þýskur karlmaður á sjötugsaldri lést um borð í flugvél Lufthansa, sem var á leið frá Bangkok í Taílandi til Munchen í Þýskalandi, eftir að hafa kastað upp blóði.

Var maðurinn úrskurðaður látinn um borð og flugvélinni snúið við.

Sky News greinir frá. 

Farþegar öskruðu

Atvikið, sem átti sér stað á fimmtudag, vakti upp mikinn óhug meðal farþega. Martin Missfelder, einn farþeganna, lýsti vettvanginum sem „algjörum hryllingi“ og sagði alla um borð hafa öskrað.

Maðurinn sem lést var í flugvélinni ásamt eiginkonu sinni. Að sögn sjónarvotta leit hann veiklulega út um leið og hann steig fæti inn í vélina.

Eftir að vélin tók á loft fór ástand hans stigversnandi og leið ekki á löngu þar til hann var byrjaður að spýta út úr sér blóði í poka. 

30 mínútur í endurlífgunartilraunir

Í samtali við svissneska miðilinn Blick sagði Missfelder að blóð hefði byrjað að flæða úr bæði munni og nefi mannsins skömmu síðar. Taldi hann manninn hafa misst nokkra lítra af blóði sem skvettist á veggi flugvélarinnar.

Flugliðar um borð vörðu um hálftíma við endurlífgunartilraunir en án árangurs. Var hann að lokum úrskurðaður látinn. 

Hafði flugvélin verið í rúmar tvær klukkustundir í loftinu, af tólf tíma ferðalagi, þegar henni var snúið við til Taílands.

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu látna farþegans,“ sagði talsmaður Lufthansa í samtali við MailOnline.

Bætti hann við að allir farþegar hefðu verið bókaðir í annað flug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert