NATO-ríkin herða varnarmálaróðurinn

Innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 er sögð hafa vakið …
Innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 er sögð hafa vakið mörg Evrópuríki upp af værum blundi. AFP

Reiknað er með að um 20 NATO-ríki, eða um tvö af hverjum þremur aðildarríkjum bandalagsins, muni verja um 2% af vergri þjóðarframleiðslu til varnarmála á þessu ári. Það er næstum því tvöfalt hærri fjárhæð borið saman við síðasta ár. 

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, mun fara nánar yfir tölurnar síðar í dag að því er segir í umfjöllun AFP, en það vakti mikla athygli þegar Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem jafnframt sækist eftir endurkjöri, sagði að hann myndi hvetja Rússa til að ráðast á þau NATO-ríki sem greiði ekki sinn skerf til varnarmála.

Samkvæmt bráðabirgðatölum NATO, þá er útlit fyrir að 20 bandalagsþjóðir af 31 muni ná settu marki og verja 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. 

Trump hefur verið harðorður gagnvart NATO-ríkjum sem hafa ekki lagt …
Trump hefur verið harðorður gagnvart NATO-ríkjum sem hafa ekki lagt sín lóð á vogarskálar hvað varðar varnarmál. AFP

Trump harðorður

Trump var harðlega ávítaður fyrir ummælin sem hann lét falla í ræðu sem hann flutti á laugardag. Hann sagðist ekki ætla að koma þeim NATO-ríkjum til aðstoðar sem stæðu ekki við sínar fjárhagslegu skuldbindingar. Trump hefur látið NATO heyra það í gegnum tíðina en fyrrgreind ummæli þykja vera hans harðasta gagnrýni hingað til. 

Árið 2014 ákvað NATO að bandalagsríkin myndu verja sem nemur 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Þetta var viðbragð NATO eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga sem áður tilheyrði Úkraínu.

Í forsetatíð sinni lét Trump NATO-ríkin heyra það í þeim tilgangi að fá þau til að setja meiri fjármuni í varnarmál. Fram kemur í umfjöllun AFP að ummælin hans hafi líklega átt þátt í því að hraða ferlinu. 

Í fyrra náðu þó aðeins 11 ríki af 31 fyrrgreindu markmiði og áfram var framlag Bandaríkjanna til varnarmála langmest. 

Innrás Rússa í Úkraínu fyrir tveimur árum vakti svo Evrópuþjóðir af værum blundi og NATO tók þá ákvörðun um að tveggja prósenta þakið væri nú orðið að lágmarki bandalagsríkja. 

Lykilríki eins og Þýskaland hafa sett meiri fjármuni í varnarmál og búist er við að Þjóðverjar nái settu marki í ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert