Hrottalegt ofbeldismál í grunnskóla

Læknaskýrslur staðfesta áburð og frásagnir foreldranna en lögregla hefur ekki …
Læknaskýrslur staðfesta áburð og frásagnir foreldranna en lögregla hefur ekki beitt sér í málinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Danska menntamálaráðuneytið hefur nú fengið inn á borð til sín ofbeldismál sem vakið hefur þjóðarathygli og hófst með bréfi 75 foreldra til stjórnenda Borup-barnaskólans og sveitarfélagsins Køge á Sjálandi, um 40 kílómetra suðvestur af Kaupmannahöfn.

Kvarta foreldrarnir þar yfir sleifarlagi skólastjórnenda hvað vinnubrögð þeirra snertir í máli sem að sögn foreldranna varðar „áreiti“ og „alvarleg brot“ hóps af nemendum skólans gagnvart samnemendum sínum.

Upphaf málsins má rekja til desembermánaðar árið 2022 þegar uppvíst varð að samnemandi níu ára stúlku í skólanum hafði beitt hana kynferðisofbeldi um langa hríð, meðal annars nauðgað henni.

Gróft ofbeldi hefur viðgengist í barnaskóla í danska bænum Køge …
Gróft ofbeldi hefur viðgengist í barnaskóla í danska bænum Køge um tveggja ára skeið og er menntamálaráðherra kominn með málið á sitt borð eftir að 75 foreldrar kröfðust aðgerða og kvörtuðu yfir sleifarlagi stjórnenda skólans og sveitarfélagsins. Ljósmynd/Wikipedia.org/Mogens Engelund

Langt í frá eina fórnarlambið

„Það sem mér þykir sárast er að þótt hún hafi ekki viljað fara í skólann og borið sig illa krafðist ég þess að hún færi vegna þess að ég hafði ekki hugmynd um hvað viðgekkst,“ segir móðir stúlkunnar við TV2 og lætur nafns síns ekki getið af tillitssemi við dótturina.

Og stúlkan hennar er langt frá því að vera eina fórnarlamb hópsins sem herjað hefur á skólasystkini sín í tvö ár að því er talið er.

Læknaskýrslur staðfesta áburð og frásagnir foreldranna en lögregla hefur ekki beitt sér í málinu þar sem aldur barnanna setur það undir hatt félagsmála- og barnaverndaryfirvalda. Meðal þess sem foreldrarnir kvarta yfir í erindi sínu er að kvalararnir fái enn að mæta í skólann þrátt fyrir allt sem á undan er gengið.

Greina þeir frá því að börn þeirra hafi verið lamin, neydd til að afklæðast, neydd til að lemja skólasystkini sín til að sleppa sjálf við barsmíðar og hlutum stungið upp í endaþarm þeirra.

„Pissufélagakerfið“ skyldi bjarga málum

Virðast aðgerðir skólayfirvalda heldur máttlitlar miðað við þær lýsingar sem nú eru komnar fram á ofbeldinu en meðal þess sem þeir hafa reynt að taka upp er kerfi svokallaðra „pissufélaga“ sem fara skuli tveir og tveir saman á salernið til að draga úr líkum á árásum.

Hefur málið verið til umræðu í danska þinginu þar sem talsmenn nokkurra flokka hafa hreyft þeirri hugmynd að gera nemendurna ofbeldisfullu útlæga úr skólanum. Vill Mattias Tesfaye, barna- og menntamálaráðherra, framkvæma rannsókn á viðlíka málum á landsvísu í Danmörku áður en hann grípur til aðgerða í málum Borup-skólans.

Spyr ráðherra meðal annars hvort skólinn og sveitarfélagið hafi beitt sér rétt í málinu og „eftir bókinni“ eða hvort eitthvað hefði átt að gera öðruvísi. Einhverjir teldu svarið liggja í augum uppi.

Sálfræðiaðstoð við foreldra

„Það er mjög óvenjulegt að sveitarfélagið leiti til ráðuneytis í tilfellum sem þessu,“ segir Frederik Waage, prófessor í stjórnsýslurétti við Suðurdanska háskólann, SDU, í samtali við danska ríkisútvarpið DR og bætir því við að auk þess hljóti það að vera þungavigtaratriði í málinu að ráðherra boði rannsókn á landsvísu.

„Hér er klárlega á ferð mál sem varðar fleiri en foreldra barna í Køge, það varðar fólk um allt land,“ segir Waage.

Blés sveitarfélagið til blaðamannafundar nú undir kvöld þar sem stjórnendur skólamála þess sátu fyrir svörum, meðal annars Lars Nedergaard, formaður skólanefndar, sem sagði að sveitarfélaginu væri kunnugt um þrjú mál þar sem sjö til tíu nemendur hefðu komið við sögu sem gerendur.

Boðaði Nedergaard meðal annars sálfræðiaðstoð á kostnað sveitarfélagsins til handa foreldrum þeirra barna sem misgert hefði verið við. „Anni sálfræðingar sveitarfélagsins ekki verkefninu kaupum við inn þjónustu,“ sagði Nedergaard.

DR
DRII (blaðamannafundurinn)
TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert