Íslenskir áhrifavaldar til rannsóknar hjá ESB

Evrópusambandið hefur rannsakað og fylgst með stafræna heiminum undanfarin ár.
Evrópusambandið hefur rannsakað og fylgst með stafræna heiminum undanfarin ár. mbl.is/Alexander

„Að horfa á uppáhalds áhrifavaldinn sinn gleðjast yfir nýjustu skyndibitatískunni eða kokteilnum hljómar kannski eins og hin besta skemmtun, en eflaust eru þessar færslur dularfullar auglýsingar,“ segir í yfirlýsingu Evrópusambandsins í dag.  

AFP-fréttaveitan greinir frá því að innan stjórnkerfis sambandsins séu vaxandi áhyggjur af áhrifum höfunda efnis á samfélagsmiðlum, allt frá því er varðar líkamlega og andlega heilsu, og til stjórnmála eða útbreiðslu rangra upplýsinga.

Fæstir nefna að um auglýsingu sé að ræða

Þar sem talið er að markaðssetning áhrifavalda hafi skilað um 20 milljörðum evra á heimsvísu á síðasta ári, hóf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á málinu.

Voru niðurstöðurnar ótvíræðar en í ljós kom að 97% áhrifavalda birtu færslur með auglýsingaefni en aðeins 20% þeirra sögðu frá því að um auglýsingu væri að ræða. 

Rannsóknin náði til 576 áhrifavalda í 22 aðildarríkjum, auk Íslands og Noregs, en í henni var kannað hvort áhrifavaldarnir uppfylltu neytendalög ESB, sem neyða þá til að upplýsa um alla auglýsingastarfsemi.

Margir fylgjendur undir lögaldri

Þeir miðlar sem áhrifavaldarnir notuðu voru Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok, Twitch, X (áður Twitter) og YouTube.

„Áhrifavaldar hafa töluvert vald yfir fylgjendum sínum, sem margir eru undir lögaldri,“ segir Didier Reynders, dómsmálastjóri ESB, í yfirlýsingu.

„Ég skora á þá að vera mun gagnsærri fyrir fylgjendur sína og áhorfendur.“

Kynntu skaðlega starfsemi

Af þeim áhrifavöldum sem skoðaðir voru kynntu 119 þeirra „óholla eða hættulega starfsemi“, þar á meðal ruslfæði, áfengi, snyrtivörur, fjárhættuspil eða gjaldeyrisviðskipti.

Segir framkvæmdastjórn ESB að 358 áhrifavaldar standi frammi fyrir frekari aðgerðum ef þeir fari ekki að reglunum. Þá er tekið fram að 27 ríki innan Evrópusambandsins meti nú hvaða aðgerða eigi að grípa til gagnvart áhrifavöldum.

Kemur jafnframt fram að mælt sé með því að aðildarríki íhugi að þróa siðareglur fyrir áhrifavalda.

Fyrirtækjum gert að vernda notendur

Rannsóknin hefur verið í sviðsljósinu eftir að upp kom hneykslismál á síðasta ári sem tengdist ítölsku Instagram-stjörnunni Chiara Ferragni. Gaf hún ranglega til kynna að hagnaður af kökusölu rynni til barna með beinkrabbamein og er það mál nú til rannsóknar. Brugðust Ítalir við með áformum um að auka eftirlit með áhrifavöldum.

Þá samþykktu Frakkar á síðasta ári lög um áhrifavalda sem snúast um það að koma í veg fyrir að þeir selji vafasamar vörur eða ýti undir áhættusama þróun en Evrópusambandið hefur fylgst grannt með stafræna heiminum síðastliðin ár. 

Tímamótalög um stafræna þjónustu (DSA) kveða á um að fyrirtæki geri meira til að vernda notendur gegn hatursorðræðu og röngum upplýsingum sem og neytendur sem versla á netinu.

Þá mun DSA einnig hafa áhrif á það hvernig áhrifavaldar nota vettvang til að deila efni sínu þar sem krafist er meira gagnsæis. Frá og með laugardeginum 17. febrúar verða öll fyrirtæki innan sambandsins að fara að lögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert