Maður í Oregon greindist með svartadauða

Meðal einkenna farsóttarinnar eru hiti, ógleði, hrollur, vöðvaverkir og þreyta.
Meðal einkenna farsóttarinnar eru hiti, ógleði, hrollur, vöðvaverkir og þreyta. Ljósmynd/Colourbox

Íbúi í Oregon-ríki í Bandaríkjunum greindist með bakteríuna sem veldur svartadauða. Þykir líklegt að viðkomandi hafi smitast af ketti.

Heilbrigðisstarfsmenn hafa tilkynnt tilfellið og er búið að hafa samband við alla þá sem hafa verið í návígi við manninn eða köttinn, og þeim útvegað lyf.

Yfirvöld á svæðinu segja tilfellið hafa greinst snemma, búið sé að grípa til viðeigandi ráðstafana og að lítil ógn steðji að samfélaginu.

AP fréttastofan greinir frá.

Greindist síðast 2015

Meðal einkenna farsóttarinnar eru hiti, ógleði, hrollur, vöðvaverkir og þreyta. Koma einkenni fram um tvo til átta daga eftir að viðkomandi hefur verið í návígi við smitað dýr eða fló.

Rúm átta ár eru liðin frá því að bakterían greindist í manneskju í Oregon-ríki. Þá varð unglingsstúlka bitin af fló í veiðiferð í október árið 2015, skammt frá Heppner í Morrow-sýslu.

Stúlkan veiktist fimm dögum eftir bitið og var lögð inn á sjúkrahús þremur dögum síðar. Enginn var talinn hafa smitast af henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka