Trump rýfur þögnina um andlát Navalnís

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, batt í dag enda á þögn sína um dauða rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní sem lést á dögunum í fanganýlendu norðan við heimskautsbaug þar sem hann var að afplána nítján ára fangelsisdóm.

Í pistli sem Trump skrifar á samfélagsmiðil sinn, Truth Social, rétt nefnir hann nafn Navalnís og fer því næst ófögrum orðum um Bandaríkin og bandarískt embættiskerfi.

Andlát Navalnís vakti hann til umhugsunar

„Skyndilegt andlát Alexei Navalnís hefur gert mig meira og meira meðvitaðan um hvað er að gerast í landinu okkar. Þetta eru hæg en stöðug skref fram á við með róttæka vinstri stjórnmálamenn, saksóknara og dómara sem leiða okkur inn á braut til glötunar,“ skrifar Trump.

Trump segir að opin landamæri, kosningasvindl og ósanngjarnar ákvarðanir dómstóla fái að viðgangast í Bandaríkjunum sem séu í hnignun.

Minntist ekki á Pútín

Í færslunni minnist Trump hvorki á rússnesk stjórnvöld né Vladimír Pútín en margir leiðtogar víða um heim segja að hann beri ábyrgð á dauða Navalnís.

Ekkja Navalnís segir að Pútín hafi drepið mann sinn.

„Fyrir þremur dögum síðan drap Vladimír Pútin eiginmann minn, Alexei Navalní,“ sagði Yulie Navalnía í myndbandsávarpi sem birt var í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert