Segir Trump vera hömlulausan og í ójafnvægi

Nikki Haley kveðst ekki vera á förum úr kosningabaráttunni þrátt …
Nikki Haley kveðst ekki vera á förum úr kosningabaráttunni þrátt fyrir slakt gengi í könnunum. AFP/Getty Images/ Allison Joyce

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er hömlulaus og í ójafnvægi. Þetta sagði Nikki Haley, mótframbjóðandi hans í forvali Repúblikana, í gær á kosningafundi er hún hét því að halda kosningabaráttu sinni gangandi.

Nikki Haley hefur sett enn meiri þunga í árásir sínar gegn Trump að undanförnu en hún er fjarri góðu gamni í skoðanakönnunum.

Kosið verður í Suður-Karólínu nú á laugardag í forvali Repúblikana um forsetatilnefningu flokksins.

Trump með mikið forskot 

Nikki Haley er sjálf frá Suður-Karólínu og þjónaði þar sem ríkisstjóri á árunum 2011 til 2017.

Þrátt fyrir það er Trump geysivinsæll meðal Repúblikana í því ríki og samkvæmt RealClearPolitics er Trump með að meðaltali 25,3% forskot á Haley í ríkinu.

Ef skoðaðar eru kannanir á landsvísu er hann með um 50% forskot á hana.

Boðaði til óvænts fundar

Haley boðaði óvænt til kosningafundar í gær til að „fara yfir stöðuna í kosningabaráttunni“ og héldu sumir að hún væri að fara kasta inn handklæðinu. Svo var ekki.

„Hann verður illkvittnari og meira móðgandi með hverjum deginum,“ sagði Haley meðal annars á fundinum.

„Hann er algjörlega annars hugar og allt snýst um hann. Hann er svo heltekinn af djöflum sínum í fortíðinni að hann getur ekki einbeitt sér að framtíðinni sem Bandaríkjamenn eiga skilið,“ sagði hún við stuðningsmenn sína og hét því um leið að halda ótrauð áfram í kosningabaráttunni.

Stuðningsmenn Trumps hafa kallað eftir því að hún dragi framboð sitt til baka svo að flokkurinn geti sameinast í kosningabaráttunni gegn sitjandi forseta Joe Biden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka