Átta særðust í skotárás á Vesturbakkanum

Ísraelskir hermenn skammt frá Maale Adumim á Vesturbakkanum fyrr í …
Ísraelskir hermenn skammt frá Maale Adumim á Vesturbakkanum fyrr í mánuðinum. AFP/Ahmad Gharabli

Átta manns særðust eftir að þrír byssumenn hófu skothríð með sjálfvirkum byssum á þó nokkur farartæki skammt frá byggð gyðinga á Vesturbakkanum þar sem Ísraelar fara með völd.

Lögreglan sagði að um hryðjuverkaárás hefði verið að ræða.

Árásin var gerð skammt frá Maale Adumimim, austur af borginni Jerúsalem, að sögn lögreglunnar.

„Þrír hryðjuverkamenn…fóru út úr farartækjum sínum og hófu skothríð með sjálfvirkum vopnum í átt að farartækjum sem voru föst í umferðarteppu á veginum í átt að Jerúsalem,” sagði í yfirlýsingu lögreglunnar.

„Tveir hryðjuverkamenn voru stöðvaðir á staðnum. Í leit sem gerð var á vettvangi fannst annar hryðjuverkamaður sem reyndi að flýja en hann var einnig stöðvaður.”

Átta manns, með mismunandi tegundir meiðsla, voru fluttir á slysadeild, að sögn lögreglunnar.

Uppfært kl. 9.19:

Einn lést í árásinni og átta til viðbótar særðust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert