Fyrirskipa athugun á skrúfboltum í MAX-vélum

Farþegaþota af gerðinni 737 MAX 9 frá Alaska Airlines.
Farþegaþota af gerðinni 737 MAX 9 frá Alaska Airlines. AFP

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa fyrirskipað öllum flugfélögum sem hafa í flota sínum Boeing-vélar af gerðinni 737 MAX, MAX 8-200 og MAX 9 að kanna sérstaklega hvort skrúfboltar í hliðarstýri flugvélanna séu lausir.

Eftilitsaðilar óttast að boltar og skinnur gætu dottið úr vélinni á flugi séu þeir ekki nægjanlega festir. Kunnugir segja að umræddir boltar séu tengdir fótstigi flugmanna og hafi áhrif á getu þeirra til að stjórna vélinni.

Ekki festir aftur

Tilskipunin kemur í kjölfar þess að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum settu sérstaka áherslu á að skoða hvort skrúfboltar væru festir í Boeing-vélum í kjölfar atviks í flugi Alaska Airlines.

Í því tilviki féll hleri af vélinni á meðan hún var í miðju flugi. Rannsókn benti til þess að skrúfboltar hefðu verið fjarlægðir í verksmiðju Boeing og svo ekki festir aftur.

Boeing lagðist í sérstakt átak til að kanna festingu skrúfbolta á vélum fyrirtækisins í kjölfar atviksins hjá Alaska Airlines. Af 1.400 vélum kom í ljós að boltar í hliðarstýri voru lausir í einu tilviki.

Icelandair er með fjórar MAX 9-vélar í flota sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert