Tugþúsundir í vandræðum með símasamband

Los Angeles, Chicago, Houston og Atlanta eru meðal þeirra svæða …
Los Angeles, Chicago, Houston og Atlanta eru meðal þeirra svæða sem standa frammi fyrir flestum bilunum á símasambandi. AFP/Spencer Platt

Þúsundir notenda bandarískra fjarskiptafyrirtækja hafa tilkynnt bilanir vegna þess að símar þeirra virðast utan þjónustusvæðis. 

Samkvæmt upplýsingum Downdetector.com, vefsíðu sem fylgist með truflunum á þjónustu, hafa þúsundir viðskiptavinir mismunandi fjarskiptafyrirtækja tilkynnt um bilanir. Fyrstu tilkynningar bárust um klukkan 9 í morgun að staðartíma og hefur þeim farið fjölgandi síðan. 

Orsökin óljós

Tilkynningar um bilun á þjónustu AT&T, einu stærsta fjarskiptafyrirtæki Bandaríkjanna, eru nú rúmlega 60 þúsund. Flestar bilanir hafa verið tilkynntar í suður- og austurhluta landsins. 

Að sögn notenda birta símtæki þeirra SOS-skilaboð og geta þeir ekki hringt úr tækjunum og sumir ná ekki netsambandi.

Stórborgirnar Los Angeles, Chicago, Houston og Atlanta eru meðal þeirra svæða þar sem flestar bilanir hafa verið tilkynntar.

Orsök vandans er ekki enn ljós.

Neyðarlínan liggur einnig niðri

Fjarskiptafyrirtækið Verizon kvaðst í samtali við Breska ríkisútvarpið ekki kannast við bilanir á kerfi þess. 

Fyrirtækið gaf þá í skyn að viðskiptavinir væru að tilkynna vandamál eftir að hafa gert árangurslausar tilraunir til að hafa samband við notendur annars þjónustuaðila.

Viðskiptavinir T-Mobile, Cricket Wireless, UScellular og Consumer Cellular hafa einnig tilkynnt um bilanir. 

Neyðarlínan, 911, liggur einnig niðri á sumum svæðum. Embættismenn hafa ráðlagt þeim sem þurfa á aðstoð að halda að hafa samband við neyðarlínuna með öðrum hætti, eins og í gegnum samfélagsmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert