Yakuza-stjóri ákærður í New York

Yakuza-stjórnandinn Takeshi Ebisawa gæti átt áratuga fangelsi yfir höfði sér.
Yakuza-stjórnandinn Takeshi Ebisawa gæti átt áratuga fangelsi yfir höfði sér. Ljósmynd/Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Takeshi Ebisawa, einn innsti koppur í búri japönsku glæpasamsteypunnar Yakuza, sætir nú ákæru í New York-borg ásamt taílenskum vitorðsmanni sínum, Somphop Singhasiri, fyrir að hafa keypt geislavirku efnin plútón og úran í Búrma með það fyrir augum að selja það í ágóðaskyni.

Samkvæmt ákærunni sem þeim var birt fyrir dómi á Manhattan voru þeir einnig ákærðir vorið 2022 fyrir fíkniefnasmygl og vopnalagabrot og hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan.

„Sakborningarnir eru ákærðir fyrir samverknað við að hafa lagt á ráðin um að selja geislavirk efni á vopnabúnaðarstigi og banvæn fíkniefni frá Búrma auk þess að kaupa hernaðarvopn í nafni vopnum búins hóps uppreisnarmanna,“ segir Matthew Olsen, saksóknari í þjóðaröryggisdeild bandaríska dómsmálaráðuneytisins og bætti því við að óhugnanlegt væri að ímynda sér hugsanlegar afleiðingar hefði ætlunarverkið tekist.

Tveir gulir klumpar

Telja rannsakendur að Ebisawa hafi einskis svifist þegar hann tókst á hendur fífldjarfan flutning efnanna frá Búrma, fíkniefna auk plútóns og úrans.

Lögreglumaður í dulargervi narraði Japanann til að leysa frá skjóðunni og sýna myndir af geislavirku efnunum við hlið Geiger-teljara, tækis sem mælir geislavirkni, sem sýndi að um geislavirkni var að ræða.

Í sameiginlegri aðgerð bandarískra og taílenskra lögreglumanna var hald lagt á tvo gula klumpa sem Ebisawa lýsti sem „yellowcake“ við yfirheyrslu og var þar, samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var á stofu, um að ræða efni sem nægt hefði til að útbúa kjarnavopn hefði magn þess verið nægt.

Ágóðann hugðist Ebisawa nota til vopnakaupa handa ónefndri hreyfingu búrmískra uppreisnarmanna.

Verði hann sekur fundinn gæti hann átt von á 25 árum fyrir að reyna að kaupa flugskeyti til höfuðs fljúgandi skotmörkum og 20 árum að auki fyrir smygl geislavirku efnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert