Netanjahú kynnir stóra planið fyrir Gasa

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur lagt fram áætlun varðandi framtíðarskipulag á Gasa að loknu stríði. Hann sér fyrir sér að palestínskir embættismenn slíti öll tengsl við Hamas og erlenda stuðningsmenn samtakanna. 

Palestínsk yfirvöld hafa hafnað tillögunni, sem Netanjahú kynnti á fundi öryggisráðs Ísraels síðdegis í gær. Samkvæmt hugmyndum forsætisráðherrans mun ísraelski herinn halda áfram að berjast við Hamas, eða þangað til herinn hefur náð sínum lykilmarkmiðum.

Þau snúast meðal annars um að afvopna Hamas og íslamska vígamenn og tryggja lausn allra gísla sem eru enn í haldi á Gasa, að því er kemur fram í umfjöllun AFP. 

Ísraelskir hermenn eiga að sjá alfarið um öryggi á Gasa …
Ísraelskir hermenn eiga að sjá alfarið um öryggi á Gasa samkvæmt áætluninni. AFP

Að stríði loknu eiga opinber málefni Gasa að lúta stjórn palestínskra embættismanna sem búa yfir stjórnendareynslu. Þeir eigi jafnframt ekki að tengjast ríkjum eða hópum sem styðja hryðjuverkamenn. 

Þá kemur fram í áætlun Netanjahú, að jafnvel eftir stríðið eigi Ísraelsher að njóta fullkomins frelsis til að starfa á Gasa til að fyrirbyggja möguleg hryðjuverk. 

Jafnframt kemur fram að Ísrael muni halda áfram að setja á laggirnar öryggissvæði við landamærin að Gasaströndinni og að það svæði verði þar eins lengi og þörf krefur. 

Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir að Ísrael sjái alfarið um öryggismál á svæðinu vestur af Jórdaníu á landi á láði og legi. Markmiðið sé að koma í veg fyrir að hryðjuverkahópar styrkist á Vesturbakkanum og á Gasaströnd og til að bæla niður alla ógn sem beinist gegn Ísrael. 

Auk þess er gert ráð fyrir áætluninni að Gasa verði algjörlega herlaust svæði en heimilt að hafa búnað til að tryggja almannaöryggi. 

Frá Rafah á suðurhluta Gasa.
Frá Rafah á suðurhluta Gasa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert