Fimm konur myrtar á einum degi

Lögreglan í Austurríki rannsakar morð á fimm konum.
Lögreglan í Austurríki rannsakar morð á fimm konum. AFP/Max Slovencick

Lögreglan í Austurríki rannsakar nú morð á fimm konum sem áttu sér stað í Vínarborg á föstudag.

Á föstudagskvöld fundust lík þriggja ungra kvenna í vændishúsi í hverfinu Birgittenau, en þær höfðu verið stungnar til bana.

Lögreglan handtók 27 ára karlmann í nágrenninu sem grunaður er um að hafa framið morðin, en hann hélt á hníf sem talið er vera morðvopnið. Verið er að yfirheyra manninn.

Faðirinn grunaður

Fyrr á föstudag fundust fullorðin kona og 13 ára dóttir hennar látnar í íbúð í höfuðborginni. Talið er að þær hafi verið kyrktar og er faðir stúlkunnar grunaður um verknaðinn.

Samkvæmt samtökum austurrískra kvennaathvarfa voru 26 morð framin á konum í landinu í fyrra. Ríkisstjórn Austurríkis hefur heitið því að bregðast við, meðal annars með því að auka fjármagn til samtaka sem aðstoða fórnarlömb ofbeldis.

Á árunum 2010 til 2020 voru 319 konur myrtar í Austurríki, að mestu af karlkyns mökum sínum eða fyrrverandi mökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert