Ætluðu að lenda með 33 kg af marijúana á Íslandi

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn voru handteknir af lögreglunni í bandaríska ríkinu Virginíu eftir að um 33 kíló af marijúana fundust í farangri þeirra á Dulles-alþjóðaflugvellinum.

Mennirnir eru sagðir hafa ætlað að flytja fíkniefnin til Parísar í Frakklandi með viðkomu á Keflavíkurflugvelli, að sögn bandaríska landamæraeftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningu eftirlitsins að ræktendur og fíkniefnasalar séu í auknum mæli að flytja maríjúana til Evrópu og Asíu vegna þess að þar fáist mun hærra verð fyrir það en í Bandaríkjunum, að því er Washington Post greindi frá.

Bandaríska landamæraeftirlitið sagði fíkniefnin hafa fundist í 66 pokum í þremur ferðatöskum sem verið var að flytja um borð í flugvél á leið til Íslands. Hinir handteknu komu frá Las Vegas í ríkinu Nevada.

Götuvirði efnanna í Bandaríkjunum er talið vera allt að 350 þúsund dalir, eða hátt í 50 milljónir íslenskra króna. Í París hefði götuvirðið getað orðið tvisvar til þrisvar sinnum hærra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert