Danir hætta rannsókn á Nord Stream

Gas streymir úr Nord Stream-leiðslunni upp til yfirborðs sjávar í …
Gas streymir úr Nord Stream-leiðslunni upp til yfirborðs sjávar í september 2022. AFP/Sænska landhelgisgæslan

Danska lögreglan greinir frá því í dag að rannsókn hennar á skemmdarverkum á Nord Stream-gasleiðslunni, sem liggur milli Rússlands og Þýskalands, haustið 2022 sé hætt.

„Með stoð í rannsóknarniðurstöðum geta lögregluyfirvöld nú slegið því föstu að skemmdarverkin á leiðslunni hafi verið unnin með vitund og vilja,“ segir í yfirlýsingu lögreglu um málið og enn fremur að í ljósi niðurstaðna þyki ekki ástæða til að hafa uppi saksókn í málinu í Danmörku.

Sænsk yfirvöld hættu sinni rannsókn snemma í mánuðinum og báru við lögsöguskorti. Komu tveir lekanna fjögurra þó upp innan sænskrar efnahagslögsögu en hinir tveir innan danskrar. Hafsvæðið, þar sem lekarnir komu upp, er þó alþjóðlegt. Rannsókn Þjóðverja á málinu er þar með sú eina sem enn stendur.

Rannsóknin „flókin og umfangsmikil“

Hafa rannsakendur í öllum þremur ríkjunum haldið spilunum þétt að brjósti sér og varist allra frétta – að sögn vegna þeirra diplómatísku afleiðinga sem niðurstöðurnar gætu haft í för með sér.

Kveður lögreglan í Kaupmannahöfn rannsóknina – sem framkvæmd var í samstarfi við dönsku leyniþjónustuna PET – hafa verið „flókna og umfangsmikla“ og kæmi lögregla ekki til að tjá sig frekar um málið.

Í Rússlandi gagnrýnir Dmítrí Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, ákvörðun Dana um að hætta rannsókninni og kvað hana fáránlega. „Annars vegar viðurkenna þeir að skemmdarverk af ráðnum hug hafi átt sér stað en á hinn bóginn hyggjast þeir ekki halda [rannsókninni] áfram,“ segir Peskov.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka