Neitaði að kæra innbrotið

Mál sem hófst með símtali áhyggjufulls nágranna í Ósló í …
Mál sem hófst með símtali áhyggjufulls nágranna í Ósló í nóvember 2021 átti eftir að vinda upp á sig, nú bíða fimm sakborningar réttarhalda sem hefjast í maí og krefst saksóknari fimmtán ára refsingar. Ljósmynd/Norska lögreglan

Kvöld eitt í nóvember 2021 hringdi áhyggjufullur nágranni í Tøyen í norsku höfuðborginni Ósló í lögregluna og hafði þungar áhyggjur. Brotist hafði verið inn til nágranna hans, útidyrahurðin brotin upp svo sjá mátti skýr ummerki verknaðarins.

Lögreglan sendi bifreið á staðinn og mynduðu lögregluþjónarnir, sem sinntu útkallinu, laskaðan dyraumbúnaðinn og hringdu í rúmlega þrítugan mann sem skráður var til heimilis í íbúðinni. Vildi sá gera sem minnst úr bíræfinni innrásinni á heimili hans og fullvissaði lögreglu um að hann léti gera við skemmdirnar.

Skömmu síðar hafði lögregla samband við manninn á nýjan leik og gekk eftir kæru af hans hálfu en ekki vildi hann kæra og var umburðarlyndið uppmálað í garð þessara samborgara sinna sem orðið hafði á í messunni á lífsgöngu sinni og fetað glæpabrautina breiðu. Engu hefði enda verið stolið að hans sögn.

Nafnlausa ábendingin

Ekki sá lögregla þá ástæðu til að aðhafast frekar í málinu og leið svo tæpt ár. Í ágúst 2022 barst lögreglunni nafnlaus ábending sem í fyrstu virtist vera frá öðrum áhyggjufullum íbúa norsku höfuðborgarinnar. Sá greindi frá því að fíkniefni væru geymd í einbýlishúsi í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar.

Fór lögregla á vettvang og framkvæmdi húsleit sem fljótlega afhjúpaði eitt og hálft kílógramm af heróíni í hátalara. Þar með voru þó ekki öll kurl komin til grafar. Í þakeinangrun hússins fann lögreglan 33,5 kg af efninu til viðbótar í íþróttatösku svo heildarmagn fundins heróíns við leitina var 35 kg, þriðji stærsti heróínfundur í sögu norsku lögreglunnar.

Heróínið sem fannst í einbýlishúsinu í Bærum í kjölfar nafnlausrar …
Heróínið sem fannst í einbýlishúsinu í Bærum í kjölfar nafnlausrar ábendingar. Þjófnaður þess í Ósló árið áður var þaulskipulagður. Ljósmynd/Norska lögreglan

Er þarna var komið sögu tók eftirlitsdeild með skipulagðri glæpastarfsemi hjá Óslóarlögreglunni við rannsókn málsins sem leiddi til þess að íbúinn umburðarlyndi í Tøyen og innbrotið í nóvember árið áður kom á nýjan leik inn í sjónsvið lögreglunnar.

Sá hafði nýlega verið fluttur inn í íbúðina og kom fljótlega upp úr kafinu að innbrotið þar hafði langt í frá verið handahófskennt brot ógæfumanna í verðmætaleit. Þvert á móti var það skipulagt til hins ýtrasta.

Leiddi til pyntinga í Albaníu

Íbúinn, sem nú er einn fimm ákærðra í málinu, hafði það hlutverk að vera vörslumaður 39 kg af heróíni – fengsins sem innbrotsmennirnir leituðu og vissu vel að væri þar að finna. Þegar slíku magni af sterkum og rándýrum fíkniefnum er stolið hefur það afleiðingar – í þessu tilfelli náðu þær alla leið til Albaníu. Hópurinn sem stóð á bak við heróínþjófnaðinn hafði þegar selt hátt á fjórða kílógramm þegar lögreglan fann það sem eftir stóð í Bærum.

Götuverðmæti efnanna nemur að mati lögreglu rúmum 456 milljónum íslenskra …
Götuverðmæti efnanna nemur að mati lögreglu rúmum 456 milljónum íslenskra króna. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Rökstuddur grunur leikur á að þjófnaðurinn hafi orðið kveikjan að alvarlegri misklíð, ofbeldi og í einu tilfelli pyntingum í Albaníu,“ segir Arvid Utby, stjórnandi eftirlitsdeildar með skipulagðri glæpastarfsemi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Áætlar lögregla götuverðmæti heróínsins sem fannst í Bærum 35 milljónir norskra króna, jafnvirði rúmlega 456 milljóna íslenskra króna, og tengir lögregla efnin við eiturlyfjahring á Balkanskaganum. Eru þó fjórir af fimm sakborningum málsins norskir ríkisborgarar, sá fimmti íranskur.

Vörslumaðurinn neitar sök

Að sögn Utby hefur lögregla nú komist á snoðir um að tveir sakborninganna fengu upplýsingar um heróínið sem geymt var í íbúðinni í Tøyen. Þegar var sett upp aðgerð sem gekk út á að þriðji sakborningurinn lokkaði heróínvörslumanninn með sér út á meðan samverkamaður hans braust inn og stal efninu.

Vörslumaðurinn neitar sök í málinu að sögn verjanda hans, Trygve Staff. Hið sama gerir sá sem grunaður er um innbrotið að sögn Jon Anders Hasle sem annast málsvörn þess sakbornings en sá hefur áður hlotið dóma, meðal annars fyrir rán og vörslu fíkniefna.

Tveir sakborninganna eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um innbrotið auk þess að hafa staðið á bak við dreifingu þýfisins og geymslu þess í íbúðinni í Bærum. Annar þeirra hefur áður hlotið dóm fyrir vopnalagabrot og neitar sök.

Krefst fimmtán ára

Hinn, íranski ríkisborgarinn, játar sök og hyggst að sögn verjandans, Unni Fries, tjá sig ítarlega fyrir Héraðsdómi Óslóar þegar aðalmeðferð málsins hefst í maí. Annar sem játar sök er maður á þrítugsaldri til heimilis í einbýlishúsinu þar sem lögregla fann heróínið eftir að ábendingin nafnlausa barst. Frá því greinir Øyvind Bratlien verjandi hans.

Telur lögregla að sá hafi hugsanlega verið þvingaður til að geyma fíkniefnið á heimili sínu eða honum hótað með einhverjum hætti svo hann féllist á það.

Saksóknari fer fram á allt að fimmtán ára fangelsi í máli fimmmenninganna.

NRK

Budstikka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert