Ríkisstjórn Palestínu fer frá

Mohammad Shtayyeh stýrir ríkisstjórnarfundi í Ramallah á þriðjudaginn.
Mohammad Shtayyeh stýrir ríkisstjórnarfundi í Ramallah á þriðjudaginn. AFP/Jaafar Ashtiyeh

Palestínski forsætisráðherrann Mohammad Shtayyeh tilkynnti afsögn ríkisstjórnar sinnar í dag en hún hefur farið með völdin á hluta Vesturbakkans hernumda.

Færði ráðherrann Mahmud Abbas, forseta landsins, afsagnarbréf ráðuneytis síns og kvað skýringuna þörf landsins fyrir breytingar eftir að væringum Ísraels og Palestínu lyki.

Stjórnir Bandaríkjanna og fleiri ríkja hafa kallað eftir nýrri skipan palestínsku heimastjórnarinnar og því að hún fari með stjórn allra svæða sem undir ríkið heyra þegar átökunum, sem hófust 7. október, lýkur.

Nýr raunveruleiki á Gasa

Nefndi forsætisráðherrann fráfarandi „þróun mála í tengslum við árásirnar á Gasasvæðið og stigmagnandi spennu á Vesturbakkanum og í Jerúsalem“ og kvaðst hafa boðið forsetanum afsögn ráðuneytis síns á þriðjudaginn fyrir tæpri viku en lagt hana fram skriflega í dag. Hefur Abbas forseti enn ekki tekið afstöðu til afsagnarinnar.

Sagði forsætisráðherra í stuttorðum athugasemdum í dag að næsta skrefið og þær áskoranir sem því fylgdu krefðust nýrra stjórnaraðgerða sem tækju „nýjan raunveruleika á Gasasvæðinu“ með í reikninginn.

Kallaði hann eftir palestínskum samhljómi og „útfærslu valdsviðs heimastjórnarinnar yfir allt palestínskt landsvæði“.

Hamas hafi ekkert pólitískt vægi

Ísraelsstjórn hefur þvertekið fyrir að Hamas-hryðjuverkasamtökin muni hafa nokkurt pólitískt vægi á Gasa í framtíðinni en þess í stað lagt til að palestínskir embættismenn á svæðinu gætu átt þar hlut að máli.

Abbas forseti hefur sætt aukinni gagnrýni síðan stríðið braust út með innrás Hamas í Ísrael í október, meðal annars fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að fordæma af fullri einurð árás Ísraelsmanna á Gasa í kjölfar innrásarinnar og ofbeldisölduna á Vesturbakkanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert