Segja Navalní hafa verið á leið í fangaskipti

Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní lést í rússnesku fangelsi í sjálfsstjórnarhéraðinu Okurg …
Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní lést í rússnesku fangelsi í sjálfsstjórnarhéraðinu Okurg og halda samstarfsmenn hans því fram að til hafi staðið að skipta á honum og rússneskum leyniþjónustumanni í haldi Þjóðverja. AFP

Samstarfsfólk rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalnís segir að til hafi staðið að skipta á honum og öðrum fanga, FSB-leyniþjónustumanninum og drápsmanninum Vadím Krasíkov, sem afplánar dóm fyrir manndráp í þýsku höfuðborginni Berlín.

Hafi dauða Navalnís í fanganýlendunni FKU IK-3 í þorpinu Kharp í sjálfsstjórnarhéraðinu Okurg 16. febrúar borið að höndum rétt áður en af þessum skiptum varð.

Að sögn Maríu Pevtsjikk, eins samstarfsmannanna, hafði Vladimír Pútín Rússlandsforseti fengið tilboð um að fá Krasíkov afhentan gegn því að hann afhenti tvo bandaríska ríkisborgara, sem sitja fangnir í Rússlandi, og Navalní.

Viðræður á lokastigi

„Ég hef fengið það staðfest að samningaviðræðurnar stóðu yfir og voru á lokastigi,“ sagði Pevtsjikk við AFP-fréttastofuna en samkvæmt upplýsingum frá henni höfðu viðræðurnar staðið yfir um tveggja ára skeið og verið á milli embættismanna í Berlín, Moskvu og Washington.

„Til stóð að sleppa Navalní á næstu dögum,“ sagði hún við fréttastofuna. Þýsk stjórnvöld neita hins vegar að tjá sig nokkuð um málið en þau bandarísku hafa ásakað Rússa um að handtaka bandaríska ríkisborgara fyrir upplognar sakir með það fyrir augum að hafa þá sem skiptimynt fyrir Rússa sem hlotið hafa dóma í öðrum ríkjum.

Meðal Bandaríkjamanna sem sitja í haldi í Rússlandi er Paul Whelan, fyrrverandi bandarískur sjóliði og Wall Street Journal-blaðamaðurinn Evan Gerskótvitsj en báðir sæta þeir ákæru fyrir njósnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert