Varar við „kókaínflóðbylgju“

Höfuðstöðvar norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos í Bryn í Ósló. Í nýju …
Höfuðstöðvar norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos í Bryn í Ósló. Í nýju áhættumati stofnunarinnar er varað við „kókaínbylgju“, Noregur sé orðinn fyrsta höfn í Evrópu fyrir stórar fíkniefnasendingar í kjölfar herts eftirlits í Rotterdam og Antwerpen. Ljósmynd/Wikipedia.org/Ronny Østnes

Norska rannsóknarlögreglan Kripos óttast að Noregur verði að umskipunarhöfn fyrir fíkniefnaflutning erlendra glæpahringja. Kemur þetta fram í nýju áhættumati stofnunarinnar þar sem talin er veruleg hætta á að hópar í skiplagðri glæpastarfsemi nýti landið sem eins konar dreifingarmiðstöð fyrir efni á leið á norræna og aðra evrópska markaði.

„Við sjáum fyrir okkur alvarlega stöðu þar sem Noregur gæti orðið umskipunarland fyrir fíkniefni og einnig að lögregla, tollgæsla og aðrir aðilar í samfélaginu verði að hafa með sér samstarf og vinna markvisst gegn þessari þróun,“ segir Eivind Borge, deildarstjóri rannsóknardeildar Kripos, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Tekur deildarstjórinn það fram að hér sé ekki um nýtilkomna sýn embættisins að ræða heldur þróun sem átt hafi sér stað yfir lengra tímabil.

Alþjóðleg glæpastarfsemi nær

„Ástandið í Noregi er öðruvísi en í mörgum öðrum Evrópuríkjum,“ heldur Borge áfram. „Samtímis því sjáum við að alþjóðleg glæpastarfsemi hefur færst nær Noregi en áður. Það ráðum við meðal annars af stórum fíkniefnahaldlagningum og miklu magni kókaíns síðustu árin, þetta sýnir okkur að glæpahringirnir starfa á alþjóðavettvangi.“

Varar Kripos nú við „kókaínflóðbylgju“ (n. „kokaintsunami“) frá Suður-Ameríku til Evrópu sem skollið geti af afli á Noregi en rannsóknarlögreglan telur að auki ástæðu til að vara við glæpagengjum í Svíþjóð, Marokkó og Litáen, ásamt gengjum mæltum á albanska tungu.

„Mörg þessara gengja eru í beinu sambandi við eiturlyfjahringi í Suður-Ameríku og útvega norskum afbrotahópum efni. Þau eru mjög fagmannleg og láta margs konar þjónustu í té í undirheimunum,“ segir deildarstjórinn enn fremur.

Aukið samstarf gengja

Þá bendir Kripos á óöldina í Svíþjóð, sem mbl.is hefur sagt töluvert af síðan í haust, og segir fíkniefnaviðskiptin fara fram utan dagsljóssins á meðan ofbeldið og valdataflið milli gengjanna sé sænskum almenningi nú sýnilegra en nokkru sinni.

Sum þessara gengja, svo sem hin alræmda klíka Foxtrot sem „kúrdíski refurinn“ Rawa Majid stjórnar frá Tyrklandi, séu tekin að gera sig digur í Noregi auk þess sem samstarf sé orðið meira milli gengja sem áður tróðu illsakir og bárust jafnvel á banaspjót.

Segir Borge framangreint – auk þess hve hóparnir séu að verða fagmannlegir í vinnubrögðum sínum – verða mikla áskorun fyrir norsk og evrópsk lögreglulið og tollgæslu er fram líða stundir. Nefnir hann marokkóska fíkniefnahringi sem helstu ógnina næsta árið, einkum hina svokölluðu Mocro-mafíu sem Kripos telur að muni standa á bak við bróðurpartinn af innflutningi og dreifingu kannabisefna og kókaíns í Noregi.

Barnaskapur einn

Að sögn Borge telur Kripos að Mocro hafi töglin og hagldirnar í allri aðfangakeðju fíkniefna, frá framleiðslu í Marokkó til sölu í Noregi. Spyr NRK að bragði hvaða ráða norsk löggæsluyfirvöld muni neyta til að snúa þróuninni við.

„Kripos hefur þegar gripið til stórra aðgerða sín megin og á alþjóðavettvangi,“ svarar deildarstjórinn, „hér þarf að vinna með alla verðmætakeðjuna frá bakmönnum erlendis til Noregs og undirheimanna á Austurlandinu og eins annarra bæja sem fá birgðir frá þessum samtökum.“ Segir hann norska lögreglu hafa staðið sig vel við að fylgja þróuninni en það væri barnaskapur einn að halda það gerlegt að stöðva ferlið.

Noregur laði nú viðskipti erlendu hópanna meira til sín í kjölfar þess er Hollendingar og Belgar stórhertu tökin á höfnunum í Rotterdam og Antwerpen. „Þá líta samtökin til annarra hafna,“ segir Borge.

Þá greinir Øystein Børmer tollstjóri frá því að síðasta ár hafi sýnt svart á hvítu að Noregur sé orðinn fyrsta höfn fyrir stórar fíkniefnasendingar, einkum kókaín. Stærstu málin komi nú upp vegna efna sem finnist í gámaskipum eða hafi komið til landsins þá leiðina.

„Strandlengja Noregs er sú næstlengsta í heimi, nokkuð sem gerir eftirlitið mjög krefjandi fyrir okkur,“ segir Børmer við NRK.

NRK

NRKII (aldrei meira kókaín tekið en 2023)

NRKIII (hvers vegna að smygla kókaíni í bananakössum?)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert