Læsti sig inni og hringdi í neyðarlínu

Kristine Pedersen ákæruvaldsfulltrúi greinir frá niðurstöðum lögreglurannsóknar á harmleiknum í …
Kristine Pedersen ákæruvaldsfulltrúi greinir frá niðurstöðum lögreglurannsóknar á harmleiknum í Straumen í Sørfold á nýársnótt. Skjáskot/Bein útsending NRK

„Rannsókn lögreglu hefur ekki leitt neina ástæðu verknaðarins í ljós,“ sagði Kristine Pedersen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Nordland-fylki í Noregi, á blaðamannafundi lögreglunnar, um hádegisbil í dag, um mál nítján ára gamals manns sem myrti móður sína og stjúpföður með eggvopnum á nýársnótt áður en hann tók sitt eigið líf.

Fólkið var búsett í Straumen í Sørfold þar í fylkinu, um 2.000 íbúa byggðarlagi, og vakti málið mikinn óhug er frá því var greint í fjölmiðlum í byrjun árs, upphafið að manndrápsbylgju sem á sér ekki hliðstæðu á friðartímum í Noregi en alls voru sjö manns myrtir fyrstu níu daga ársins og í byrjun febrúar voru fórnarlömbin orðin fjórtán í ellefu málum.

Vaknaði við skarkala

Parið Elin Nordheim Bordi og Terje Åsmund Nordhei voru 46 ára gömul og átti hún þrjú börn, soninn sem myrti þau bæði nóttina örlagaríku og tvær dætur, sextán og ellefu ára.

Kvaðst Pedersen ekki mundu greina frá meintri atburðarás í neinum smáatriðum en vitnisburðir stúlknanna eru einu tiltæku vitnisburðirnir um það sem gerðist á nýársnótt.

Eldri stúlkan vaknaði við skarkala um miðja nóttina sem barst frá svefnherbergi móður hennar. Eftir því sem rannsókn lögreglu leiddi í ljós átti móðirin þá í átökum við son sinn og kom stúlkan að þeim. Einhver orðaskipti átti hún við bróður sinn áður en hún ákvað að fara niður á neðri hæðð hússins og hringja í neyðarnúmerið 113. Til öryggis læsti hún sig inni á baðherbergi á meðan hún hringdi.

Hvort það hafði eitthvað að segja...

Stjúpfaðirinn, Nordhei, starfaði sjálfur sem slökkviliðsmaður og reykkafari hjá Neyðarmiðstöðinni 110 og voru það því samstarfsmenn hans sem fengu símtalið og komu á vettvang sem áhöfn sjúkrabifreiðar.

Var stúlkan á línunni og ræddi við neyðarsímavörð þar til fyrsta lögreglubifreiðin kom á vettvang. Þá hafði yngri stúlkan, hálfsystir sonarins, vaknað og farið á stjá til að kanna hvað um væri að vera og særðist hún í atlögu hálfbróður síns, þó ekki lífshættulega.

Lögregla telur að fyrsta lögreglubifreið hafi verið komin á vettvang innan eðlilegs viðbragðstíma. „Hvort það hafði eitthvað að segja er erfitt að meta,“ sagði Pedersen ákæruvaldsfulltrúi á blaðamannafundinum í dag.

Líkin til rannsóknar vikum saman

„Atburðarásin hefur verið hröð og það er erfitt að segja hve langur tími leið frá því móðirin lést og hann [sonurinn] tók sitt eigið líf,“ sagði Pedersen og tók fram að lögreglurannsókninni væri enn ekki að fullu lokið en líkin voru svo lengi til rannsóknar að útför Elinar Bordi, Terje Nordhei og banamanns þeirra, sonar hennar, fór ekki fram fyrr en 23. janúar, tæpum mánuði eftir harmleikinn.

Hefur lögregla farið í gegnum stafræn tæki hinna látnu og rætt við fjölda, nágranna, vinnufélaga og vina þeirra. Sagði Pedersen ekkert benda til þess að árásarmaðurinn hefði lagt á ráðin um ódæðið auk þess sem engin ástæða liggur fyrir svo sem fyrr segir.

Fólkið var allt látið þegar viðbragðsaðilar komu inn í húsið og telur lögregla, miðað við niðurstöðu rannsóknarinnar, að maðurinn hafi fyrst myrt móður sína en svo stjúpföðurinn. Einhvers staðar í þeirri atburðarásinni hafi hann svo veitt ellefu ára gamalli hálfsystur sinni áverka og að lokum stytt sér aldur. Fundust þrír hnífar á vettvangi og ljóst að tveimur þeirra var beitt við verknaðinn.

Erfitt að ímynda sér sársaukann

Auk þess áfalls sem íbúar Straumen upplifðu við fráfall fjölskyldu sem að þeirra sögn var hvers manns hugljúfi – og kom fregnin því eins og þruma úr heiðskíru lofti – syrgir samstarfsfólk Neyðarmiðstöðvarinnar 110 góðan félaga og vin.

„Sem samstarfsmaður fær Terje bestu meðmæli,“ segir Per Gunnar Pedersen, slökkviliðsstjóri slökkviliðsins í Salten, um hinn látna, „hann var sterkur á svellinu faglega, trúr og traustur. Hlý framkoma hans var fjölda fólks styrkur í neyðartilvikum auk þeirrar stoðar sem hann var samstarfsfólki sínu í útköllum.“

„Í dag erum við heilt samfélag sem fylgir eftirlifendum til Røsvik-kirkju til að kveðja þrjá nágranna okkar,“ sagði Kolbjørn Mathisen bæjarstjóri við héraðsdagblaðið Saltenposten á útfarardaginn í janúar, „við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund þann sársauka sem margir líða í dag, en einmitt þess vegna kjósum við, sem lítið samfélag, að standa þétt við hlið þeirra sem nú kveðja sína nánustu,“ sagði Mathisen enn fremur.

TV2

NRK

ABC Nyheter

Saltenposten (rætt við bæjarstjóra)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert