Skotárás í miðborg Óslóar

Lögregla við rannsókn á vettvangi í Løren í nótt.
Lögregla við rannsókn á vettvangi í Løren í nótt. Ljósmynd/Íbúi í húsinu/Ábendinganetfang VG

Lögreglan í Ósló fór með miklum viðbúnaði að íbúð í Løren-hverfinu í Grünerløkka í miðborginni eftir að henni barst tilkynning um skothvelli þar á öðrum tímanum í nótt miðað við norskan tíma.

Fóru vopnaðir lögreglumenn á vettvang í fjölda bifreiða og urðu þess varir að skotið hafði verið á ytra byrði íbúðar á fyrstu hæð þar í hverfinu en í íbúðinni eru nokkrar manneskjur skráðar til heimilis.

„Enginn er sár og enginn hefur verið handtekinn,“ segir Oscar Støversten yfirlögregluþjónn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að orsök árásarinnar sé óljós en öðrum íbúum hverfisins sé engin hætta búin.

Leita dökkrar jeppabifreiðar

Að sögn Gjermund Stokkli vettvangsstjóra kannast heimilisfólk í íbúðinni síst við að hafa nokkuð til saka unnið sem kallað gæti á slík viðbrögð og kveðst fullkomlega ómeðvitað um kveikjuna að árásinni.

Nokkur skotgöt eru á útidyrahurð íbúðarinnar og sáu vitni mann forða sér á hlaupum frá íbúðinni. Eins leitar lögreglan að dökkri jeppabifreið, hugsanlega Chevrolet Tahoe.

Að sögn Stokkli grunar lögreglu hvers konar skotvopni var beitt við árásina en kýs að láta það ekki uppi. „Við höfum nokkrar kenningar um hvað gerðist og hvers vegna en viljum ekki tjá okkur um þær,“ segir hann við NRK.

Liggur enginn undir grun í málinu enn sem komið er en lögregla ræðir við vitni og aðra íbúa hússins auk þess sem tæknideild rannsakar vettvang.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert