Stýrði „samtökum atvinnumorðingja“

Fjölmennt þungvopnað lögreglulið gætti öryggis á vettvangi í dag.
Fjölmennt þungvopnað lögreglulið gætti öryggis á vettvangi í dag. AFP

Hollenski fíkniefnabaróninn Ridouan Taghi var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi vegna fjölmargra morða sem liðsmenn hans hafa framið í landinu. Málin hafa valdið ótta og skelfingu í landinu.

Taghi, sem er 46 ára gamall, er sagður vera höfuðpaur samtakanna sem hafa aðsetur í Amsterdam, höfuðborg Hollands. Dómarinn sagði að samtökin væru „samtök atvinnumorðingja“. 

Dómsmálið hefur staðið yfir í sex ár. Ofbeldisverk hafa verið framin í tengslum við það og það vakti mikla athygli þegar að minnsta kosti þrír einstaklingar, sem tengdust dómsmálinu með beinum hætti, voru skotnir til bana um hábjartan dag. Þeirra á meðal var þekktur blaðamaður. 

Lögmenn á leið inn í dómshúsið í dag.
Lögmenn á leið inn í dómshúsið í dag. AFP

Allir sakfelldir

Dómsmálið yfir Taghi og sextán öðrum sakborningum snerust hins vegar ekki um þau morð. Heldur varðaði dómsmálið önnur morðmál, morðtilraunir og undirbúning að tilræðum á milli áranna 2015 til 2017.

„Við dæmum alla 17 sakborninga. Ridouan Taghi hlýtur lífstíðardóm,“ sagði dómarinn við Héraðsdóm Amsterdam. 

„Hann ákvað hver skyldi vera myrtur og hann hlífði engum,“ sagði dómarinn, en andlit hans var ekki birt í sjónvarpsútsendingu frá dómsuppkvaðningunni. Taghi var sjálfur ekki viðstaddur hana. 

Hinir mennirnir fengu allt frá um 20 mánaða fangelsi yfir í lífstíðardóma. 

Hollensk lögregluþyrla flaug yfir svæðið.
Hollensk lögregluþyrla flaug yfir svæðið. AFP

Handtekinn eftir að hafa verið á flótta

Það kemur til álita að endurskoða dóm Taghi eftir 25 ár, en það þýðir ekki að honum verði sjálfkrafa veitt reynslulausn. 

Taghi var handtekinn í Dúbaí árið 2019 eftir að hafa verið á flótta. 

Þrátt fyrir að hann hafi verið í haldi í sérstöku öryggisfangelsi þá sagði ákæruvaldið að honum hefði tekist að stjórna glæpagenginu með því að koma til þeirra leynilegum skilaboðum. 

Fjölmargir þungvopnaðir lögreglumenn gættu öryggis við dómshúsið í dag, en byggingin, sem er rétt utan við Amsterdam, er þekkt sem Byrgið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert