Björgunarþyrla hrapaði - sex fluttir á sjúkrahús

SAR Queen-leitar- og björgunarþyrla kom á vettvang ásamt tveimur sjúkraþyrlum. …
SAR Queen-leitar- og björgunarþyrla kom á vettvang ásamt tveimur sjúkraþyrlum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Marius Kalleberg Mydland

Leitar- og björgunarþyrla sem var á æfingarflugi vestur við eyjuna Sotra í Noregi hrapaði laust fyrir klukkan átta á staðartíma í kvöld. Allir sex áhafnarmeðlimir hafa verið fluttir á sjúkrahús, en ekki er vitað hvert ástand þeirra er. 

Þyrlan hélt af stað frá bænum Bergen klukkan 18.24 í kvöld og lauk æfingu með flutningaskipi á Oseberg-olíu- og gassvæðinu um klukkustund síðar. Aðeins átta mínútum eftir að æfingu lauk missti þyrlan ratsjársamband samkvæmt heimildum norska ríkisútvarpsins

Fengu bátar á svæðinu tilmæli um að leita að þyrlu sem stefndi í átt að vatnsyfirborði, en þyrlan var búin neyðarsendi sem virkjast sjálfkrafa er hann snertir vatn. Sendirinn sendir út stöðugt útvarpsmerki á 406 MHz tíðni og gerði þar með aðalbjörgunarstöðinni viðvart og kleift að finna þyrluna. 

Tvær sjúkraflugvélar og björgunarþyrla frá norska hernum, SAR Queen, fóru á staðinn og hófu björgunaraðgerðir. Talið er að þyrlan hafi verið í vatninu í um 50 mínútur. 

Um er að ræða Sigorsky S-92-þyrlu, en orkusamsteypan Equinor segir þyrluna annast þjónustu við olíupall á Oseberg, olíu- og gassvæði fyrirtækisins í Norðursjónum.

Olíuborpallar í Norðursjó. Mynd úr safni.
Olíuborpallar í Norðursjó. Mynd úr safni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert