Eignaðist barnabarnabarnabarn

Eide, lengst til vinstri í efstu röð, á bekkjarmynd frá …
Eide, lengst til vinstri í efstu röð, á bekkjarmynd frá Smaabrukarskulen við Halsnøy-klaustur árið 1934. Ljósmynd/Úr einkasafni

Vidar Eide, 109 ára og sjö mánaða gamall norskur bóndi, lést í Hardanger í gær í faðmi afkomenda sinna og færðist þar með nafnbótin elsti maður Noregs yfir til Odd Borlaug sem verður 107 ára í lok mars.

Eide heitinn hafði verið elsti maður Noregs síðan 2020 en tveimur árum síðar varð hann einnig elsta manneskja Noregs, nokkuð sem nú fellur Linu Anundsen í skaut sem þá er vitaskuld um leið elsta kona landsins, 109 ára og þriggja mánaða gömul.

Elsta manneskja allra tíma í Noregi – eða að minnsta kosti síðan tekið var að halda utan um þá tölfræði – er hins vegar Maren Bolette Torp sem lést í febrúar 1989, þá 112 ára og 61 dags gömul.

Mjólkin lykill að langlífi

„Það var klárlega mjólk sem hélt lífinu í honum undir það síðasta,“ segir Britt Eide, barnabarn bóndans, við norska ríkisútvarpið NRK, en sjálfur sagði hann í lifanda lífi, einnig í viðtali við NRK, að mjólkin og streitulaust líf væri lykillinn að langlífi hans.

Fram til 108 ára aldurs bjó Eide í húsinu sem hann fæddist í, í Tørvikbygd í Hardanger, og bjargaði sér vel sjálfur, en ævikvöldinu varði hann í þjónustuíbúð. Varð honum sex barna auðið, sautján barnabarna, 36 barnabarnabarna og eins barnabarnabarnabarns.

Til að setja aldur Eide, sem kom í þennan heim 3. júlí 1914, í samhengi var hann vatni ausinn og skírður í Jondal-kirkju daginn sem fyrri heimsstyrjöldin braust út, 28. júlí það ár. Þegar hann fæddist áttu Norðmenn til samans 1.200 vélknúin ökutæki, nú má finna 2.205 bílastæði í stærstu bílageymslunni í Bergen.

55 ára þegar Armstrong steig á tunglið

Bóndinn upplifði alla Ólympíuleika síðan leikarnir voru endurvaktir nema fyrstu fimm, í Aþenu 1896, París 1900, St. Louis 1904, London 1908 og Stokkhólmi 1912. Þá var hann kominn hátt á sextugsaldur, var 55 ára, þegar Neil Armstrong steig fæti á tunglið fyrstur manna.

Vidar Eide verður lagður til hinstu hvílu föstudaginn 8. mars í sinni heima- og fæðingarbyggð, Tørvikbygd. Barnabarnið Britt Eide segir kveðjustundina munu verða erfiða, afi hennar hafi jú „alltaf“ verið til. „Hans verður sárt saknað. Ég vona bara að hann viti hve heitt við elskuðum hann,“ segir hún við NRK.

NRK

NRKII (rætt við Eide 108 ára gamlan)

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka