Hæstiréttur tekur fyrir kröfu Trump um friðhelgi

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP/Mandel Ngan

Hæstiréttur Bandaríkjanna mun ákveða hvort að Donald Trump njóti friðhelgi vegna stöðu sinnar sem fyrrverandi Bandaríkjaforseti í máli gegn honum er varðar aðild hans að áhlaup­inu á þing­húsið í janú­ar 2021.

Dómarar greindu frá því í dag að málið yrði tekið fyrir í hæstarétti og skal málflutningur hefjast 22. apríl. 

Mál sérstaka saksóknarans Jack Smith gegn Trump mun því tefjast enn frekar en ákæra var gefin út 1. ágúst 2023 og átti málið að fara fram fyrir dómi á mánudag.

Ákæran er í fjórum liðum og snýr að ólögmætum tilraunum Trumps til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020. Hann neitar sök. 

ABC News greinir frá því að lögmenn Smiths og Trumps munu skila inn greinargerðum til dómsins á næstu vikum. 

Hvort og að hve miklu leyti?

Spurningin sem hæstiréttur mun beina sjónum sínum að er: „Hvort og ef svo er, að hve miklu leyti nýtur fyrrverandi forseti friðhelgi gegn saksókn fyrir brot sem tengjast störfum hans í embætti?“

Bandaríkjaforseti hefur aldrei verið sóttur til saka svo málið er einstakt í bandarískri réttarsögu. 

Tvö dómsstig hafa nú þegar úrskurðað að Trump njóti ekki friðhelgi. Dómarar úrskurðuðu þá að Trump hefði verið orðinn almennur ríkisborgari er brotið átti sér stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert