Transnistría biður Rússa um vernd

Hermaður og kona á göngu fram hjá höfuðstöðvum rússneska hersins …
Hermaður og kona á göngu fram hjá höfuðstöðvum rússneska hersins í Tíraspol, höfuðborg Transnistríu. AFP

Aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum, í héraðinu Transnistríu í Moldóvu, hafa óskað eftir því að Rússland komi þeim til varnar.

Óttast er að þeir séu með þessu að opna fyrir nýja víglínu í stríði Rússlands gegn Úkraínu, en héraðið liggur upp að landamærum Úkraínu að suðvestanverðu.

Þessi mjóa landræma hefur í raun lotið stjórn aðskilnaðarsinna, sem hliðhollir eru Rússum, allt frá því Sovétríkin féllu. Á alþjóðavísu er hún aftur á móti viðurkennd sem hluti af Moldóvu.

Efnahagslegt stríð

Boðað var til sérstaks þings í dag, þess sjöunda í sögu héraðsins, og samþykktu samankomnir fulltrúar að biðja rússneska þingið að „verja“ Transnistríu frá því sem þeir segja aukinn þrýsting af hálfu moldóvskra yfirvalda.

Segja þeir ríkisstjórn Moldóvu í Kisínev hafa ýtt úr vör „efnahagslegu stríði“ gegn Transnistríu. Hún hindri för mikilvægs innflutnings og vilji þar með gera héraðið að „gettói“.

„Ákvarðanir þessa þings geta ekki verið hunsaðar af alþjóðasamfélaginu,“ sagði utanríkismálastjóri héraðsins, Vítalí Ignatjév, á fundinum.

Fjallað var um fundinn og hvernig komið er fyrir Transnistríu á mbl.is í morgun.

Sögðu Úkraínu leggja á ráðin um innrás

Allt frá því Pútín fyrirskipaði um allsherjar innrás í Úkraínu, fyrir rétt rúmum tveimur árum, hafa stjórnvöld Moldóvu óttast að Kreml kunni að notfæra sér Transnistríu til að marka aðra víglínu úr suðvestri. Þaðan gætu Rússar til að mynda sótt að Ódessu.

Óútskýrðar sprengingar urðu víða í héraðinu árið 2022. Hernaðarsérfræðingar töldu þá að stuðningsmenn Rússa gætu verið að reyna að draga héraðið inn í átökin.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sakaði Úkraínu í síðustu viku um að hafa lagt á ráðin um innrás í héraðið, án þess þó að færa fyrir því nokkrar sannanir.

Í mars á síðasta ári sökuðu stjórnvöld í Transnistríu Úkraínumenn um að hafa reynt að myrða leiðtoga þeirra. Þessu höfnuðu Úkraínumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert