Gætu opnað nýja víglínu að Úkraínu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi með varnarmálaráðherranum Sergei Sjoígú.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi með varnarmálaráðherranum Sergei Sjoígú. AFP

Aðskilnaðarsinnar í héraðinu Transnistríu í Moldóvu koma saman til fundar í dag. Óttast er að þar muni þeir opna fyrir nýja víglínu í stríði Rússlands gegn Úkraínu, en héraðið liggur upp að landamærum Úkraínu að suðvestanverðu.

Þessi mjóa landræma hefur í raun lotið stjórn aðskilnaðarsinna, sem hliðhollir eru Rússum, allt frá því Sovétríkin féllu. Á alþjóðavísu er hún aftur á móti viðurkennd sem hluti af Moldóvu.

Boðað hefur verið til sérstaks þings í dag, þess sjöunda í sögu héraðsins, á sama tíma og deilur um tolla við moldóvsku ríkisstjórnina hafa stigmagnast.

Munu líklega biðja um inngöngu í Rússland

Síðast var blásið til slíks fundar árið 2006, þegar fulltrúarnir tilkynntu sérstaka íbúakosningu um innlimun í Rússland. Yfirgnæfandi meirihluti greiddra atkvæða féll þeirri ráðstöfun í hag.

Ríkisstjórn Moldóvu og Vesturlönd óttast nú að aðskilnaðarsinnar gætu endurtekið leikinn, með meiri áhrifum en áður í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu og stríðsins sem virðist ekki ætla að linna.

Stjórnarandstæðingurinn Gennadí Tsjorba hefur sagt líklegustu niðurstöðu fundarins verða þá að fulltrúarnir kjósi að biðja um inngöngu í Rússland, aðeins degi áður en forsetinn Vladimír Pútín flytur árlega ræðu sína fyrir rússnesku löggjafarsamkunduna.

Óútskýrðar sprengingar

Allt frá því Pútín fyrirskipaði um allsherjar innrás í Úkraínu, fyrir rétt rúmum tveimur árum, hafa stjórnvöld Moldóvu óttast að Kreml kunni að notfæra sér Transnistríu til að marka aðra víglínu úr suðvestri. Þaðan gætu Rússar til að mynda sótt að Ódessu.

Óútskýrðar sprengingar urðu víða í héraðinu árið 2022. Hernaðarsérfræðingar töldu þá að stuðningsmenn Rússa gætu verið að reyna að draga héraðið inn í átökin.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sakaði Úkraínu í síðustu viku um að hafa lagt á ráðin um innrás í héraðið, án þess þó að færa fyrir því nokkrar sannanir.

Í mars á síðasta ári sökuðu stjórnvöld í Transnistríu Úkraínumenn um að hafa reynt að myrða leiðtoga þeirra. Þessu höfnuðu Úkraínumenn.

Mósaíkverk frá tímum Sovétríkjanna fyrir utan byggingu sem áður hýsti …
Mósaíkverk frá tímum Sovétríkjanna fyrir utan byggingu sem áður hýsti bókasafn, skammt fyrir utan Kisínev. AFP

1.500 hermenn frá Rússlandi

Um 1.500 hermenn Rússa eru með varanlega setu í héraðinu, í því sem Kreml kallar friðargæsluverkefni.

Langflestir íbúar Transnistríu eru rússneskumælandi, en héraðið liggur á milli Dnjestr-árinnar og landamæra Úkraínu.

Aðskilnaðarsinnar börðust árið 1992 við herlið moldóvsku ríkisstjórnarinnar. Hundruð létust og rússneski herinn greip inn í átökin á endanum.

Ókeypis gas

Rússland sér Transnistríu fyrir ókeypis gasbirgðum en frá því innrásin hófst í Úkraínu hefur héraðið einangrast nokkuð frá þessum helsta bandamanni, enda sitt hvorum megin við Úkraínu.

Enn er notast við kyrillíska stafrófið í Transnistríu og héraðið hefur sinn eigin gjaldmiðil, transnistrísku rúbluna, öryggissveitir og vegabréf.

Flestir af íbúunum 465.000 hafa tvöfalt eða þrefalt ríkisfang, frá Moldóvu, Rússlandi og Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert