Biden og Trump heimsækja landamærin í dag

Biden og Trump verða báðir á landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó …
Biden og Trump verða báðir á landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó í dag. AFP/Jim Watson/Brendan Smialowski

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Donald Trump, fyrrverandi forseti, munu báðir leggja leið sína að landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó í dag.

Aðbúnaður og stjórn á landamærunum er eitt heitasta kosningamálið en Trump og Biden munu líklega etja kappi í forsetakosningunum í nóvember.

Biden mun hitta starfsmenn landamæraeftirlitsins og lögreglumenn í Bronwnsville í ríkinu Texas á meðan Trump heldur til Eagle Pass, um 480 kílómetra í vestur.

BIden í heimsókn við landamærin í El Paso í Texas …
BIden í heimsókn við landamærin í El Paso í Texas fyrir rúmu ári síðan. AFP/Jim Watson

Metfjöldi fólks streymir yfir landamærin

Metfjöldi fólks sem streymir yfir landamærin hefur skapað óvissu um möguleika Bidens á endurkjöri.

Í frétt Washington Post kemur fram að í forsetatíð Donalds Trumps á árunum 2017-2021 hafi á bilinu 250 til 800 þúsund manns farið árlega yfir landamærin ólöglega en í forsetatíð Bidens hefur fjöldinn náð methæðum og verið á bilinu 1,6 til 2,2 milljónir manns árlega.

Hermenn standa vörð við Eagle Pass í Texas fyrr í …
Hermenn standa vörð við Eagle Pass í Texas fyrr í mánuðinum. AFP/Sergio Flores

Sakar Repúblikana um iðjuleysi

Biden hefur sakað þingmenn Repúblikanaflokksins um að neita að samþykkja skynsamar breytingar á innflytjendalöggjöfinni til að ná betri stjórn á málaflokknum. Í þessum breytingum felst meðal annars aukinn fjöldi landamæravarða og þeirra sem geta fengið samþykkt hæli.

Þá segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu að Biden muni leggja áherslu á þessar breytingar sem hann hefur lagt fram í heimsókninni á landamærin í dag. 

Meirihluti Bandaríkjamanna vill múr

Áhyggjur almennings af ólöglegum innflytjendum eru meiri undir stjórn Bidens en þær voru undir stjórn Trumps og Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Meirihluti Bandaríkjamanna styður nú landamæramúr af því tagi sem Trump byrjaði að reisa, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Monmouth.

Skoðanakönnun NBC í febrúar sýndi að Trump var 30 prósentustigum vinsælli en Biden þegar kom að innflytjendamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka