Vill að strangtrúaðir gyðingar gegni herskyldu

Strangtrúaðir gyðingar hafa hingað til fengið að sleppa því að …
Strangtrúaðir gyðingar hafa hingað til fengið að sleppa því að gegna herskyldu í Ísrael. AFP

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur kallað eftir því að Ísraelar úr samfélagi strangtrúaðra gyðinga gegni herskyldu á meðan stríðið á Gasa stendur yfir. 

„Við þurfum öll að deila byrðinni,“ sagði Gallant, en málið hefur verið pólitískt þrætuepli í landinu þar sem flestum öðrum landsmönnum er skylt á ákveðnum tímapunkti að gegna herskyldu.

Frá því Ísraelsríki var stofnað árið 1948 þá hefur körlum sem helga sig lestri og fræðslu lögmálsins, eða Torah, sem er mikilvægasta rit gyðinga, fengið að sleppa því að ganga í herinn í eitt ár í senn, eða þar til þeir verða 26 ára. Þá nýtur herskyldunnar ekki lengur við. 

Eftir að stríðið braust út í október þá hefur þessi umræða, sem hefur staðið yfir áratugum saman, skotið upp kollinum af miklum krafti á nýjan leik. 

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, sést hér til vinstri á myndinni …
Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, sést hér til vinstri á myndinni þegar hann tók á móti Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í janúar. AFP

Gallant sagði í gær að það væri orðið tímabært að þessar undanþágur heyri nú sögunni til. Þá bætti hann við að hann myndi styðja löggjöf þess efnis njóti hún stuðnings ráðherra úr röðum miðjumanna sem eiga sæti í ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra. 

Gallant vísaði til þess að það væri mikil þörf á að styrkja herinn og varalið landsins. 

„Þetta snýst ekki um val. Við verðum að sýna staðfestu þegar kemur að því að verja ættjörðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert